Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Utanvegaakstur norðan Vatnajökuls

Í vikunni kom upp alvarlegt mál vegna utanvegaaksturs á hálendinu norðan Vatnajökuls, þegar ekið var margra kílómetra langa leið ýmist meðfram veginum, í slaufur og hringi út frá veginum. Um er að ræða langtum versta málið af þessu tagi á svæðinu í sumar, og líklega seinustu árin.

19. ágúst 2022

Frábært samstarf landvarða, lögreglu og vegfarenda á svæðinu varð til þess að gerendurnir náðust og voru sektaðir. Hægt var að púsla saman gögnum áðurnefndra aðila og þannig finna út klukkan hvað keyrt hefði verið utan vega og hverjir kæmu til greina sem gerendur á því tímabili. Það er því afar mikilvægt og dýrmætt þegar vitni hafa samband þegar þau standa gerendur að verki eða keyra fram á nýleg för – það getur orðið til þess að gerendur náist.

Eftir sitja hins vegar sjálf förin og mikið verk fyrir höndum hjá landvörðum við rakstur. Stór hluti verknaðarins er utan þjóðgarðs þar sem engin landvarsla er til staðar og munu förin fyrir vikið standa enn lengur. Fram að þessu tilviki mátu landverðir það svo að lítið hefði verið um akstur utan vega í sumar og ríkti ánægja með hvernig tekist hefði til með vegalandvörslu og samtal við ferðamenn. Það er því ákaflega leiðinlegt að sjá að ekki þarf nema einn geranda til þess að skemma fyrir því metnaðarfulla starfi.

Vegalandvarsla er nýtt sem tæki til upplýsingagjafar og forvarna vegna aksturs utan vega. Landverðir eru þá sýnilegir úti á vegum og leggja sig fram um að ræða við alla þá sem koma inn á svæðin stærstan part dags og fræða vegfarendur um náttúruna og umhverfið og mikilvægi þess að koma fram við hana af virðingu, m.a. með því að aka ekki utan vega. Annað mikilvægt tæki er að raka markvisst allan utanvegaakstur, ef jarðvegurinn hentar, til þess að afmá för eins fljótt og hægt er. Rakstur faranna styttir til muna þann tíma sem förin eru sýnileg, og er mikilvægt að ná því fyrir veturinn því frostið hjálpar mikið til.

Þrátt fyrir að samstarfið og forvarnirnar hafi gengið vel er mikilvægt að auka hvort tveggja og bæta á landsvísu, utan friðlýstra svæða og þjóðgarða sömuleiðis. Fræðslan er það allra mikilvægasta og hana þurfa vegfarendur að fá áður en þeir leggja á vegina.