Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Varað er við sprungum á ferðaleið austur af Grímsfjalli

Varað er við sprungum á ferðaleið austur af Grímsfjalli. Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, hefur aflýst óvissustigi almannavarna vegna jökulhlaups frá Grímsvötnum.

14. desember 2021
Skjáskot úr myndbandi frá mælingaflugi Jarðvísindastofnunar HÍ.

Jökulhlaupið náði hámarki 5. desember og rann við það mest allt vatn úr Grímsvötnum. Rennsli í Gígjukvísl nálgast nú eðlilegt vetrarrennsli. Samfara hlaupinu seig íshella Grímsvatna um 70 metra þar sem mest var, en á myndbandi á síðu Jarðvísindastofnunar HÍ sést glöggt uppbrot ís syðst í Grímsvötnum . Í atburðinum mynduðust 70 m djúpur sigketill suðaustur af Grímsfjalli og sigdæld austur af fjallinu, sem sjá má á myndbandi hér. Af þessum ástæðum hafa sprungur myndast á ferðaleiðinni austur af Grímsfjalli og er því varað við ferðum á þeim slóðum.

Nýafstaðið jökulhlaup úr Grímsvötnum og hættan sem var á eldgosi í kjölfarið, varpa ljósi á mikilvægi vísindarannsókna og þá miklu fagmennsku sem er á því sviði hér á landi. Vatnajökulsþjóðgarður vill í því samhengi þakka fyrir gott samstarf við Almannavarnir, embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands.