Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Vatnajökull á lista yfir 100 merka jarðminjastaði

Tilkynnt var um nýjan lista yfir hundrað merka jarðminjastaði á jörðinni á Alþjóðlegri jarðfræðiráðstefnu í Busan í Suður-Kóreu dagana 25. – 31. ágúst. Tveir staðir á Íslandi eru á þeim lista, Reykjanes og Vatnajökull.

11. september 2024
Kverkfjöll / Nína Aradóttir

Það er mikill heiður að Vatnajökull sé kominn á þennan lista en Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO árið 2019 þar sem hann er einstakur á heimsvísu vegna jarðsögu sinnar sem einkum er skrifuð af langvarandi átökum elds og íss.

Vatnajökull var tilnefndur sem alþjóðlega mikilvægur jarðminjastaður vegna samspils jökuls og eldvirkni af alþjóðlegu sambandi landmótunarfræðinga (International Association of Geomorphologists). Samspil þessara fyrirbæra og annarra landmótunarafla hefur skapað síbreytilega og fjölbreyttara náttúru.Sjö virkar megineldstöðvar leynast undir jökulhettunni ásamt öflugum jarðhitasvæðum. Jökulhlaup og sandar, sem eru fágæt fyrirbæri í heiminum, setja því svip sinn á landslagið. Um 40 skriðjöklar ganga út frá jöklinum og á svæðunum í kringum Vatnajökul má finna margbreytileg landform mynduð af jökli.

Gengisig í Kverfjöllum / Nína Aradóttir

Þetta er í annað sinn sem Alþjóðajarðfræðisambandið (IUGS) tekur saman lista yfir merka jarðminjastaði en fyrsti listinn var birtur á 60 ára afmælishátíð sambandsins árið 2022. Jarðminjastaðirnir eru birtir rafrænt og einnig í bókarútgáfu. Ráðgert er að listar IUGS verði þrír og mun sá þriðji birtast á árinu 2026. Markmið IUGS með útgáfu jarðminjalista er að vekja athygli á mikilvægi jarðminja til fræðslu og þekkingar, að opinbera alþjóðlega viðurkenningu á mikilvægi þeirra, en fyrst og fremst að stuðla að varðveislu merkra jarðminjastaða. Vatnajökull spilar stórt hlutverk í fræðslu í þjóðgarðinum.

Til að komast á jarðminjalista IUGS þurfa jarðminjastaðir að hafa mikið alþjóðlegt vísindagildi, þeir eru heimsins bestu dæmi um ákveðin myndunar- og mótunarferli, þetta eru staðir þar sem gerðar hafa verið merkar jarðfræðilegar uppgötvanir t.d. um sögu jarðar, eða staðir þar sem rannsóknir hafa stuðlað að þróun jarðfræði sem vísindagreinar. Umfjöllun um jarðminjar má sjá á vef IUGS.