Vatnajökulsþjóðgarður, gersemi á heimsvísu – Ný bók eftir Snorra Baldursson
Á degi íslenskrar náttúru, þann 16. september síðastliðinn, kom út bókin "Vatnajökulsþjóðgarður, gersemi á heimsvísu" eftir Snorra Baldursson líffræðing og fyrrum þjóðgarðsvörð hjá Vatnajökulsþjóðgarði.
Bókin er einstakt rit um þau náttúrugæði og verðmæti sem felast í þjóðgarði á heimsminjaskrá. Í kynningu útgefenda segir: „Hvítur haddur Vatnajökuls er höfuðprýði Íslands. Hann virðist eilífur en ekki er allt sem sýnist. Ofsafengnir jarðeldar rjúfa skörð í jökulísinn og landið í kring með tilheyrandi hraunrennsli, öskufalli og jökulhlaupum og bráðahlýnun jarðar ógnar sjálfri tilvist jökulsins. Þessi síkvika deigla elds og íss er þungamiðja Vatnajökulsþjóðgarðs. Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 2008 og lýstur heimsminjasvæði, arfleið alls mannkyns, árið 2019. Í þessari bók lýsir Snorri Baldursson líffræðingur einstakri náttúru, sögu og uppbyggingu þjóðgarðsins í máli og myndum og fjallar um hvaða tilkall hann á til æðstu gæðavottunar sem veitt er dýrmætum landsvæðum á heimsvísu“.
Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, óskar Snorra innilega til hamingju með þessa fallegu og vel skrifuðu bók. „Metnaðurinn sem var lagður í þetta verk er mikill og vel til alls vandað“. (Morgunblaðið, 21. sept 2021). Bókin er byggð á umsókn Íslands til Heimsminjanefndar UNESCO um að tilnefna Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá og var Snorri ritstjóri þess stóra verkefnis. Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur á heimsminjaskránna á fundi heimsminjanefndarinnar í Bakú í Aserbaídsjan hinn 5. júlí 2019 á grundvelli einstakrar náttúru. Fyrir átti Ísland tvo staði á heimsminjaskrá, Þingvelli (2004) og Surtsey (2008).
Vatnajökulsþjóðgarður er þrettán ára gömul stofnun í stöðugri þróun. Þjóðgarðurinn nær til Vatnajökuls og stórra svæða í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðanna sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. „Við erum sífellt að búa í haginn innan þjóðgarðsins með framkvæmdum og ýmsum úrbótum, til þess að geta sinn gestum betur. Þá vinna vísindamenn að margvíslegum rannsóknum á svæðinu, svo sem á undanhaldi jökla vegna hlýnandi loftlags. Annars er fræðsla orðin sífellt stærri og mikilvægari þáttur í öllu starfi þjóðgarða, bæði hér og annars staðar, og útgáfa á þessari bók er hluti af þeirri stefnu. Ég sé svo fyrir mér að bókin verði handhægt uppflettirit allra sem vilja fræðast um þjóðgarðinn og náttúru innan hans. Sérstaklega á slíkt við nú, þegar áhugi Íslendinga á eigin landi er að aukast og hefur kannski aldrei verið meiri”. (Morgunblaðið, 21. sept 2021).
Vatnajökulsþjóðgarður fagnar útkomu þessa veglega rits og færir Snorra Baldurssyni kærar þakkir fyrir framlag sitt til faglegrar og fallegrar miðlunar um íslenska náttúru.