Vatnajökulsþjóðgarður hluti af nýrri starfsstöð við Mývatn
Ríkissjóður hefur gengið frá kaupum á fasteigninni Hótel Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit. Með því er fengin niðurstaða um framtíðaraðstöðu fyrir meginstarfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á Norðausturlandi og starfsaðstöðu annarra stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í Mývatnssveit
Hótel Gígur mynd: Magnús Guðmundsson
Ríkissjóður hefur gengið frá kaupum á fasteigninni Hótel Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit. Með því er fengin niðurstaða um framtíðaraðstöðu fyrir meginstarfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á Norðausturlandi og starfsaðstöðu annarra stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í Mývatnssveit, sem eru Umhverfisstofnun, Landgræðslan og Rannsóknastöðin við Mývatn (Ramý).
Undirbúningur hefur staðið yfir í nánu samstarfi við Skútustaðahrepp en byggingin þykir henta vel sem ein af meginstarfstöðvum Vatnajökulsþjóðgarðs og Hálendisþjóðgarðs verði frumvarp um hann að lögum. Gestastofa sem inniheldur upplýsingar og sýningu um þjóðgarðinn og verndarsvæði Mývatns og Laxá eru fyrirhuguð í húsinu ásamt starfsaðstöðu ofantaldra stofnanna.
Mörg önnur tækifæri felast í áformunum fyrir sveitarfélagið meðal annars með þekkingarsetri og möguleika á að störf ríkisins án staðsetningar geti einnig verið í húsinu.
Uppbyging í Mývatnssveit er mikið fagnaðarefni en fyrir hefur starfsfólk svæðisins starfað á svæðinu án framtíðaraðstöðu. En gestastofur þjóðgarðsins fyrir eru fimm talsins og eru staðsettar í Skaftafeli, Ásbyrgi, Kirkjubæjarklaustri, Skriðuklaustri og á Höfn. Með kaupum á húsnæðinu í Mývatnssveit eru því komnar sex meginstarfstöðvar í kringum Vatnajökulsþjóðgarð eins og lög um garðinn kveða á um. En árið 2020 störfuðu 32 heilsárstarfsmenn hjá garðinum þar af 28 á landsbyggðini og 4 á höfuðborgarsvæðinu. Yfir sumarstímann bættust svo við um 80 starfsmenn í hlutastörf.