Vatnajökulsþjóðgarður hlýtur jafnlaunavottun
Vatnajökulsþjóðgarður hefur hlotið jafnlaunavottun sem er staðfesting á því að jafnlaunakerfi þjóðgarðsins samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Jafnlaunastaðallinn er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi og nýtist öllum fyrirtækjum og stofnunum óháð stærð, starfsemi, hlutverki og kynjahlutfalli. Hann tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns.

Jafnlaunakerfi Vatnajökulsþjóðgarðs er ætlað að stuðla að því að starfsfólk sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf fái sömu laun og að ákvarðanir í launamálum séu málefnalegar og feli ekki í sér mismunun. Launagreining vegna jafnlaunavottunar stofnunarinnar leiddi í ljós að óútskýrður launamunur á milli kynja er innan við 1%.
Nánar má fræðast um jafnlaunavottun á vef Stjórnarráðs Íslands.