Vegna umfjöllunar um atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs
Vegna umfjöllunar um atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs vill þjóðgarðurinn rekja það samráð og ferli sem hefur átt sér stað. Samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð ber fyrirtækjum sem starfa innan þjóðgarðsins að hafa samninga um þá starfsemi og því hefur það verið skýrt í langan tíma að þörf væri á atvinnustefnu innan garðsins. Það var ekki síst vegna þrýstings frá ferðaþjónustuaðiluma að kraftur hefur verið settur í verkefnið á suðursvæði Vatnajökulsþjóðagarðs en þar hafa fyrirtækin kallað eftir skýrum og gegnsæjum leikreglum.
Ljóst var frá upphafi að ferlið yrði lærdómsríkt fyrir þjóðgarðinn og atvinnulífið þar sem mikil nýsköpun er í gangi og því var ákveðið að kynna verkefnið sem þróunarverkefni. Ferlið krefst mikils samráðs sem er rakið hér á eftir og endurskoðunar eftir því sem reynslan verður til. Markmiðið með vinnunni er gott og skýrt samstarf þjóðgarðsins við atvinnulífið um hlutverk beggja aðila. Að atvinnulíf virði grunnreglur um vernd náttúru og góða starfshætti og að skýrt sé hvaða þjónustu þjóðgarðurinn veiti á móti.
Fyrsta árið var ákveðið sem tilraunaár með tilheyrandi sveigjanleika og mjög lítilli gjaldtöku. Einnig var ljóst að ekki væri hægt að innleiða atvinnustefnu fyrir alla starfsemi innan garðsins og fyrst lögð áhersla á rekstur á suðursvæði þjóðgarðsins tengda jöklagöngum og íshellaferðum á ákveðnum jöklum. Í atvinnustefnunni er þetta sérstaklega nefnt með eftirfarandi hætti; “Við staðfestingu atvinnustefnunnar í stjórn þjóðgarðsins verða engar skyndilegar breytingar á forsendum atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum heldur hefst þá undirbúningur sem krefst vandvirkni og góðs samráðs við hagaðila. Vegna ólíkra forsendna þeirra sem þegar veita þjónustu með fastri aðstöðu innan þjóðgarðsins má búast við að samningar verði gerðir í skrefum, eftir því sem samkomulag næst. Aðrar leyfisveitingar verði innleiddar með góðum fyrirvara, auðveldu viðmóti og gagnlegum leiðbeiningum.” (Atvinnustefna)
Innlegg í umræðuna frá þjóðgarðinum
Öryggi, menntun og fagmennska
> Með atvinnustefnu er lögð áhersla á að fyrirtækin hafi öryggisáætlun og að menntun leiðsögumanna sem starfa á jökli fylgi kröfum Félagi fjallaleiðsögumanna (AIMG). Virkt samtal hefur verið við fyrirtækin, Félag fjallaleiðsögumanna og Ferðamálastofu við innleiðinguna.
Eitt af markmiðum með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að leitast sé við að styrkja byggð og atvinnustarfssemi á nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins.
> Fyrir hvert rekstrarsvæði þjóðgarðsins er skipað sex manna svæðisráð sem í sitja þrír fulltrúar tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélögum og þrír fulltrúar frá félagasamtökum. Fulltrúi svæðisráðs situr svo í stjórn þjóðgarðsins. Með þessu er leitast við að tengja þjóðgarðinn við heimabyggð.
> Fram kemur í atvinnustefnu að þegar velja þarf milli þjónustuaðila er gætt fyllstu hlutlægni en jafnframt leitast við að gæta að fjölbreytni í hópi samningsaðilanna og þeirri þjónustu sem í boði er. Við val er tekið tillit til jákvæðra áhrifa sem starfsemi getur haft á byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins en samningsaðilum er ekki mismunað á grunni heimilisfestu.
> Leitast er við að styrkja byggð og atvinnustarfssemi í nágrenni þjóðgarðsins án þess að brjóta gegn öðrum lögum sem gilda á Íslandi.
Ekki kvóti heldur sjálfbær nýting á takmörkuðum gæðum þjóðgarðsins.
> Fyrirtæki hafa kallað eftir fjöldatakmörkunum á ákveðnum svæðum eins og við vinsæla íshella og jökla. Munurinn á orðunum er sá að kvóti gengur kaupum og sölum en samningar við fyrirtækin má ekki endurselja. Það er því EKKI verið að koma á kvótakerfi innan þjóðgarðsins. Þjóðgarðurinn vill takmarka fjölda að gæðum þjóðgarðsins í samtali við atvinnustarfsemi til að tryggja náttúruvernd, gæði upplifunar ferðafólks og síðast en ekki síst öryggi.
Yfirlit yfir ferlið
Stjórn leggur fram drög að atvinnustefnu og óskar eftir ábendingum í gegnum vefkönnun og samráðsfundi. Að lokum er atvinnustefnan samþykkt.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs lagði fram drög að atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn og óskað var eftir skriflegum ábendingum og athugasemdum í síðasta lagi 1. maí 2019. Samráðsfundir voru haldnir á öllum rekstrarsvæðum og í Reykjavík í febrúar og byrjun mars ásamt vefkönnun sem var opin til 12. mars 2019. Miklar upplýsingar söfnuðust um viðhorf þátttakenda til ýmissa spurninga sem beint eða óbeint snertu atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum og að lokum var atvinnustefna samþykkt af stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs 24. júní 2019
Vinna við atvinnustefnu heldur áfram og innleiðing hennar hefst. Hluti af því ferli er meðal annars:
> Síðustu vetur hafa verið haldnir vikulegir fundir með rekstraraðilum íshellaferða í Skaftafelli. Veturinn 19/20 voru slíkir fundnir haldnir aðra hverja viku á Jökulsárlóni með rekstraraðilum ísehellaferða á Breiðamerkurjökli. Er það samróma álit starfsmanna þjóðgarðsins og rekstraraðila að þessir fundir hafi verið vel heppnaðir og mikilvægt innlegg í innleiðingu atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs.
> Á vordögum 2019 sendi Vatnajökulsþjóðgarður út könnun til rekstraðila íshellaferða, og leiðsögumanna í slíkum ferðum. Voru niðurstöður könnunarinnar notaðar til þess að ákvarða ýmislegt varðandi gerð samninga fyrir rekstraðila, s.s. hámarsfjölda gesta, tegundir samninga, öryggiskröfur og þjónustu þjóðgarðsins. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á samráðsfundi sem haldinn var í Nýheimum á Hornafirði í júní 2020. Fundinum var auk þess streymt á netinu.
> Samráðsfundur í júní þar sem kynntar voru mögulegar útfærslur.
> Einnig hafa fjölmargir óskað eftir fundum og samtali og þjóðgarðurinn hefur ávallt orðið við því.
> Í kjölfar úthlutunar samninga nú í haust boðaði FASK (Ferðamálafélag Austur-Skaftafellssýslu) til félagafundar þar sem þjóðgarðsvörður á suðursvæði fór yfir umsóknarferlið og úthlutun. Í kjölfar þess fundar óskaði VJÞ eftir aðkomu FASK að endurskoðun kerfisins, þar sem ljóst var að tækifæri voru til þess að gera betur. VJÞ hefur frá upphafi verið opinn og hreinskilinn með það að þessi vinna sem nú er í gangi er þróunarvinna. Þetta hefur ekki verið gert áður í þessari mynd á íslandi og því höfum við biðlað til rekstraðaila um að sýna okkur þolinmæði og skilning. Sá vinnuhópur sem nú er starfræktur er skipaður þremur starfsmönnum VJÞ auk þriggja rekstraraðila íshellaferða á suðursvæði sem koma frá misstórum fyrirtækjum. Hópurinn vinnur að tillögum að því hvernig gera má umsóknarferlið auðveldara og skilvirkara, auk þess sem helsta markmið hópsins er að þróa mismunandi tegundir leyfa sem koma til móts við allar stærðir fyrirtækja. Frá upphafi var það ljóst að allt ferlið yrði að vera gagnsætt og því hefur fundargerðum verið miðlað til félagsmanna FASK eftir hvern fund, auk þess sem á tveggja funda fresti verður haldinn fundur með félagsmönnum FASK, en á morgun er einmitt fyrsti fundurinn með þeim.
- Nánar um lesa um mótun atvinnustefnu hér á vef þjóðgarðsins
- Atvinnustefna
- Afgreiðsla á leyfum og gerð samninga
- Verklagsregla 02-Samningar um atvinnutengda starfsemi (Drög)