Vesturdalsvegi lokað 24. september 2019
Fyrirhugað er að loka vegi 888, Vesturdalsvegi, þriðjudaginn 24. september næstkomandi vegna framkvæmda. Ólíklegt er að vegurinn opni aftur fyrr en vorið 2020.

Fyrirhugað er að loka vegi 888, Vesturdalsvegi, þriðjudaginn 24. september næstkomandi vegna framkvæmda. Ólíklegt er að vegurinn opni aftur fyrr en vorið 2020.
Endurbætur á Vesturdalsvegi eru hluti af framkvæmd við nýjan Dettifossveg. Nýr vegur verður lagður í vegstæði gamla Vesturdalsvegar frá Dettifossvegi að nýjum útsýnis- og áningarstað á Langavatnshöfða ofan Hljóðakletta. Jafnframt verður vegurinn niður brekkuna og um Vesturdal endurbættur þannig að efni verður keyrt í núverandi veg og á hann lagt bundið slitlag alla leið að bílastæði við Hljóðakletta. Vegurinn kemur hins vegar ekki til með að breikka frá því sem nú er og umferðarhraði á ekki að aukast.
Föstudaginn 20. september munu landverðir í Jökulsárgljúfrum hefja vinnu við að ganga frá í Vesturdal fyrir veturinn. Vatn verður tekið af salernum og blásið úr lögnum, og göngubrýr fjarlægðar þar sem hætta er á að þær skolist annars í burtu í vorleysingum. Áfram verður hægt að ganga leiðina milli Ásbyrgis og Dettifoss en engin þjónusta verður til staðar í Vesturdal.