Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Viljayfirlýsing um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis

Vatnajökulsþjóðgarður og Skútustaðahreppur hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf á sviði uppbyggingar íbúðarhúsnæðis tengt gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skútustöðum við Mývatn.

31. maí 2021
Við undirritun viljayfirlýsingar. T.v. Sveinn Margeirsson sveitastjóri Skútustaðahrepps. T.h. Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Samstarfið miðar að því að á næstu vikum verði gert samkomulag um mikilvægt skref varðandi framtíðarfyrirkomulag íbúðarhúsnæðis fyrir starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs. Skútustaðahreppur mun leggja áherslu á að skipulagsmál sveitarfélagsins styðji sjálfbæra uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð og koma að þeirri uppbyggingu með beinum hætti eins og við á.

Undirrituð viljayfirlýsing.

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er kveðið á um lögbundin áform ríkisins um að halda úti sex meginstarfsstöðvum þjóðgarðsins sem mynda þjónustunet. Þegar hafa meginstarfsstöðvar í Ásbyrgi, Skaftafelli, á Skriðuklaustri og Hornafirði verið settar á laggirnar og bygging meginstarfsstöðvar á Kirkjubæjarklaustri er hafin. Með uppbyggingu á gestastofu í Mývatnssveit er því búið að fullnusta uppbyggingu þessa mikilvæga þjónustunets Vatnajökulsþjóðgarðs.

Samhliða uppbyggingu gestastofunnar er mikilvægt að starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs sé tryggð örugg búseta innan Skútustaðahrepps, en aðgengi að íbúðarhúsnæði hefur verið takmarkandi þáttur í fjölgun opinberra starfa innan sveitarfélagsins. Með samstarfinu vilja Skútustaðahreppur og Vatnajökulsþjóðgarður styðja við uppbyggingu mannauðs á sviði sjálfbærrar nýtingar og vistvænnar uppbyggingar og leggja sitt af mörkum til að markmið ríkisstjórnarinnar um störf óháð staðsetningu nái fram að ganga. Vatnajökulsþjóðgarður er nú þegar í samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörð um sambærilega uppbyggingu í því sveitarfélagi.

Upplýsingar um samstarfið veita Magnús Guðmundsson framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs og Sveinn Margeirsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps.