Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Viljayfirlýsing um samstarf á milli Vatnajökulsþjóðgarðs, Þekkingarnets Þingeyinga og Skútustaðahrepps

Vatnajökulsþjóðgarður, Þekkingarnet Þingeyinga og Skútustaðahreppur undirrituðu í gær, 11. mars, viljayfirlýsingu um samstarf á sviði þekkingar- og nýsköpunartækifæra.

11. mars 2021
Frá undirritun viljayfirlýsingar sem fór fram á Hótel Gíg. Mynd: Óðinn Svan Óðinsson.

Vatnajökulsþjóðgarður, Þekkingarnet Þingeyinga og Skútustaðahreppur undirrituðu í gær, 11. mars, viljayfirlýsingu um samstarf á sviði þekkingar- og nýsköpunartækifæra. Ein af forsendum viljayfirlýsingarinnar liggur í nýlegum kaupum ríkissjóðs á Hótel Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit, þar sem fyrirhuguð er framtíðaraðstaða fyrir meginstarfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á Norðausturlandi og starfsaðstöðu annarra stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í Mývatnssveit, sem eru Umhverfisstofnun, Landgræðslan og Rannsóknastöðin við Mývatn (Ramý).

Samstarf Vatnajökulsþjóðgarðs, Þekkingarnets Þingeyinga og Skútustaðahrepps miðar að því að allir aðilar nálgist tækifæri með opnum huga þar sem hver leggur af mörkum sína styrkleika, með það að markmiði að samhliða þróun gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Mývatnssveit myndist þar suðupottur hugmynda sem styðji við sjálfbæra þróun svæðisins í víðri merkingu.

Samstarfinu er einnig ætlað að styðja við þverfaglega nálgun þekkingarsköpunar og hagnýtingar hennar í Vatnajökulsþjóðgarði og í hringrásarhagkerfi Mývatnssveitar og nærsveita. Háskólaumhverfið og rannsóknastofnanir verða hvattar til að leggja enn frekari áherslu á rannsóknir á lífríki og náttúru svæðisins, burðarþoli einstakra náttúruperla og þeirra tækifæra sem felast í þróun þjóðgarðstengdrar starfsemi fyrir samfélagið í heild sinni.

Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður á norðurhálendi þjóðgarðsins, skrifaði undir viljayfirlýsinguna fyrir hönd þjóðgarðsins, Helgi Héðinsson, oddviti, fyrir hönd Skútustaðahrepps og Óli Halldórsson, forstöðumaður, fyrir hönd Þekkingarnets Þingeyinga.