Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Viltu verða landvörður? Skráning á námskeið hefst 2. janúar.

Landvarðarnámskeið Náttúruverndarstofnunar fer fram 30. janúar - 2. mars 2025. Námskeiðið er kennt í fjarnámi, fyrir utan eina staðlotu sem jafnframt er vettvangsferð. Skráning hefst 2. janúar kl. 10.

16. desember 2024
Landvörður við upplýsingagjöf í Laka. Mynd: Ingibjörg Eiríksdóttir

Námskeiðið spannar 110 kennslustundir sem raðast niður á 5 vikur á tímabilinu 30. janúar til 2. mars 2025. Námskeiðið verður kennt milli kl. 17 og 21, fimmtudaga og föstudaga og þrjár helgar milli kl. 9 og 14. Staðlota er á námskeiðinu frá miðvikudegi til sunnudags. Val verður á milli tveggja helga, annarsvegar frá 12. – 16. febrúar eða 19. – 23. febrúar og er mætingarskylda í staðlotuna. Þá helgi sem ekki er valin, er frí. Nemendur skulu gera ráð fyrir nokkurri heimavinnu eftir að kennslu lýkur dag hvern.

Námskeiðið verður að öllu leyti kennt í fjarnámi ef frá er talinn staðlotan, sem jafnframt er vettvangsferð.

Náttúruverndarstofnun hefur yfirumsjón með námskeiðinu en kennarar koma jafnframt víðar að.

Nemendur sem ljúka landvarðarnámskeiði ganga fyrir um landvarðastörf í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum.

Megin umfjöllunarefnin á námskeiðinu eru:

  • Helstu störf landvarða
  • Náttúruvernd og stjórnsýsla náttúruverndarmála
  • Verðmæti friðlýstra svæða, náttúra, menning og saga
  • Gestir friðlýstra svæða
  • Mannleg samskipti
  • Náttúrutúlkun, fræðsla á friðlýstum svæðum, bóklegt og verklegar æfingar
  • Náttúruvernd, verkfærin okkar
  • Vinnustaður landvarða
  • Öryggisfræðsla

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna hér: Umhverfisstofnun | Landvarðanámskeið

Landvörður í fræðslugöngu í Öskju. Mynd: Stefanía Eir Vignisdóttir

Opnað verður fyrir umsóknir 2. janúar 2025 kl. 10. Sótt verður um með Íslykli eða rafrænum skilríkjum hér.

Skráð er á námskeiðið eftir röð umsókna.

Hámarksfjöldi nemenda á landvarðarnámskeiði eru 72. Lágmarksfjöldi nemenda er 25 og fellur námskeiðið niður ef tilskilinn fjöldi næst ekki.

Skráningafrestur er til 7. janúar 2025 en vert er að benda á að námskeiðið hefur fyllst mjög hratt undandarin ár.

Námskeiðsgjöld árið 2025 eru 155.000 kr og er allur kostnaður við vettvangsferð innifalinn í verðinu.

Námskeiðsgjald skal greiða áður en námskeiðið hefst.

Námskeiðið er styrkhæft hjá mörgum starfsmenntunarsjóðum.

Nánari upplýsingar um námskeiðið veitir Kristín Ósk Jónasdóttir í síma 591 2000 eða á netfanginu [email protected].

Landverðir við stígagerð í Skaftafelli.