Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Góðir vinnudagar í Borgarnesi og á Snæfellsnesi

Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir víðfemt landsvæði og einkennir það alla starfsemi. Sjö starfsstöðvar eru dreifðar allt í kringum Vatnajökul og vegalengdir geta verið drjúgar á milli staða, sbr. 570 km eftir þjóðvegi 1 milli Ásbyrgis og Skaftafells.

14. nóvember 2022

Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar fyrir utan nýja gestastofu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á Hellissandi. Mynd: Stefanía R. Ragnarsdóttir.

Starfsfólk þjóðgarðsins er öflugt í að nýta sér tæknina til samvinnu og eru Teams fundir næstum daglegt brauð. En það kemur fátt í staðinn fyrir að hittast í eigin persónu. Vinnudagarnir í Borgarnesi og á Snæfellsnesi í síðustu viku voru því kærkomið tækifæri til að þétta raðirnar hjá þeim 35 öflugu og sterku einstaklingum sem tóku þátt.

Fimmtudeginum 10. nóvember var varið í Borgarnesi þar sem farið var yfir fréttir frá öllum svæðum og sviðum ásamt því sem staðan var tekin á áherslum í fræðslumálum. Meirihluti dagsins var hins vegar helgaður samskiptum. Aldís Arna Tryggvadóttir, ráðgjafi hjá Heilsuvernd sá um að halda fullri athygli starfsfólks með frábærri vinnustofu um samskipti og samskiptahæfni.

“Rannsóknir hafa sýnt að samskipti geta verið stór streituvaldur. Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs tekst á við margs konar samskipti á hverjum degi og því er alltaf nauðsynlegt að minna okkur á og fá þjálfun og fræðslu í því hvernig hver og einn getur eflt samskiptahæfni sína. Góð samskipti eru grunnur að góðri heilsu og farsælum vinnustað", segir Ragnheiður Björgvinsdóttir, sviðsstjóri á mannauðs- og fræðslusviði.

Á föstudeginum 11. nóvember var farið í heimsókn í Þjóðgarðinn Snæfellsjökul þar sem Hákon Aðalsteinsson, þjóðgarðsvörður, tók vel á móti kollegum sínum. Starfsfólk fékk góðar móttökur í gestastofunni á Malarrifi, hvort sem var frá starfsfólki Umhverfisstofnunar eða frá hressandi roki og rigningu þegar gengið var að Lónsdröngum og Djúpalónssandi. Afar ánægjulegt var einnig að fá að kíkja við í nýju og stórglæsilegu gestastofunni á Hellissandi.

“Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls er að takast á við mjög álíka verkefni. Samstarf og samvinna okkar er því mjög mikilvægt innlegg í að auka hæfni okkar sem störfum á friðlýstum svæðum”, sagði Ingibjörg Halldórsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Að kvöldi föstudags bauð svo Hvönn, starfsmannafélag Vatnajökulsþjóðgarðs, til haustfagnaðar í miðbæ Reykjavíkur.

Stjórnendur hjá Vatnajökulsþjóðgarði þakka samstarfsfólki kærlega fyrir samveruna á vinnudögunum sem og Umhverfisstofnun fyrir góðar og hlýjar móttökur á Snæfellsnesi.