Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Gleði og samheldni á vinnudögum Vatnajökulsþjóðgarðs

Vinnudagar starfsfólks Vatnajökulsþjóðgarðs fóru fram dagana 13. - 15. mars á Fljótsdalshéraði.

21. mars 2024
Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarð á vinnudögunum 2024 / Bergrún Arna Þorsteinsdóttir

Það má segja að gleði og samheldni hafi einkennt nýafstaðna vinnudaga Vatnajökulsþjóðgarðs sem haldnir voru á Fljótsdalshéraði dagana 13. - 15. mars. Starfsfólk þjóðgarðsins er öflugt í að nýta sér tæknina til samvinnu og eru Teams fundir næstum daglegt brauð hjá flestu starfsfólki. Það er þó þannig að fátt kemur í staðinn fyrir að hittast í eigin persónu. Vinnudagarnir í Fljótsdalshreppi í síðustu viku voru því kærkomið tækifæri til að þétta raðirnar hjá þeim 50 öflugu einstaklingum sem tóku þátt.

Skipulögð dagskrá hófst fimmtudaginn 14. mars þar sem hópurinn hittist í Snæfellsstofu og svæðin og svið miðlægrar stoðþjónustu kynntu sig og fóru yfir hvernig daglegt líf er í vinnunni. Eftir hádegisverð í Skriðuklaustri fékk starfsfólk kynningu frá Skúla Birni Gunnarssyni þar sem hann kynnit meðal annars DAACHE-verkefnið sem Gunnarsstofnun og Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista eru þátttakendur í. Vatnajökulsþjóðgarður er einn af þeim samstarfsaðilum þeirra íslensku aðila sem taka þátt. Verkefnið snýst um að draga fram staðbundna þekkingu og nýta stafræna tækni til að gera samfélögum kleift að varðveita menningarlandslag og sýna hvernig það lagar sig að loftslagsbreytingum. En einnig til að skipuleggja framkvæmdaáætlanir við endurheimt landgæða í ljósi hraðra breytinga á umhverfinu. Þessar breytingar geta ógnað menningu, menningararfi og samfélagi á svæðum þar sem en stofnanir sem miðla menningararfinum eru lykilaðilar við að hvetja íbúa og ferðamenn til aukinnar vitundar og aðgerða

Starfsfólk að fylgjast með kynningum frá starfssvæðum og sviðum stoðþjónustu / Nína Aradóttir

Eftir kynninguna frá Gunnarsstofnun fékk starfsfólk tækifæri til að skoða safnið á Skriðuklaustri, en um tvöleytið fór starfsfólk að ókyrrast mjög þar sem mikill spenningur var fyrir næsta dagskrárlið sem var páskaeggjaleit í kringum Skriðuklaustur og Snæfellsstofu. Starfsfólki var skipt í 10 hópa og fékk tvö GPS hnit sem það þurfti að slá inn í GPS tæki og þá reyndi á samvinnuna sem var ekki mikið mál og öll fengu páskaegg í verðlaun.

Næst fóru hóparnir saman í bíla og keyrðu á Óbyggðasetrið. Þar fékk starfsfólk kynningu á sögunni og uppruna Óbyggðaseturins, kaffiveitingar, göngutúr að kláfnum í Norðurdal ásamt hópefli sem Hildur Bergsdóttir frá Náttúruskólanum stýrði. Eftir það fengu öll tækifæri á að fara upp á Hótel Hallormsstað, þar sem við gistum, og koma sér í betri fötin og halda í Snæfellsstofu þar sem starfsfólk átti notalega stund saman og fékk mat frá Klausturkaffi.

Starfsfólk gæðir sér á ljúffengum kaffiveitingum í Óbyggðasetrinu / Nína Aradóttir

Starfsfólk í svaðilför yfir Jökulsá í Fljótsdal / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Föstudagurinn hófst á því að öllum var skipt niður í tvo hópa. Annar hópurinn fór í gönguferð um skógræktina í Hallormsstað og endaði í Hallormsstaðaskóla og fékk kynningu frá Emmu Charlotta Ärmänen um skólann og námið sem þar er í boði. Hinn hópurinn fór í gönguferð um tjaldsvæðið í Höfðavík. Báðir hóparnir fengu leiðsögn frá starfsfólki hjá Landi og skóg, þeim Bergrúnu Örnu Þorsteinsdóttur og Þór Þorfinnssyni, sem fræddi starfsfólk þjóðgarðsins um skógræktina og starfið sem þau sinna.

Þegar þessum tveimur kynningum var lokið, sameinuðust hóparnir inni í skóginum þar sem steiktar voru lummur, poppað yfir eldi og fólk átti ljúfa stund. Þá var formlegri dagskrá lokið en fólk hafði tækifæri á því að skella sér í Vök fyrir keyrslu eða flug heim, sem að margir nýttu sér.

Samankomin í skógræktinni að steikja lummur og hlýja sér yfir eldinum / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Lummurnar ruku út / Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir

Stjórnendur hjá Vatnajökulsþjóðgarði þakkar samstarfsfólki kærlega fyrir samveruna á vinnudögunum sem og Landi og Skógi, Hallormsstaðaskóla, Gunnarsstofnun, Óbyggðasetrinu og Náttúruskólanum fyrir hlýjar og góðar viðtökur.