Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Spennandi vísindastofa á Gíg gestastofu

Sunnudaginn 22. september var haldin vísindastofa á gestastofunni Gíg. Vísindastofan var haldin í tilefni af goslokahátíð í Mývatnssveit þá helgi, en 40 ár eru frá því að Kröflueldum lauk.

27. september 2024
Listamenn framtíðarinnar mála eldfjöll með freyðandi kviku.

Á vísindastofunni var ýmislegt í boði fyrir allan aldur. Föndruð voru glæsileg eldfjöll og einnig máluð eldfjöll þar sem kvikan freyddi. Boðið var upp á leik þar sem hoppa þurfti á milli fleka til að detta ekki niður í kvikuna og fengu þátttakendur hraunbita í verðlaun þegar þau höfðu lokið þrautinni. Ýmis konar steinar voru rýndir, glansandi hrafntinna, fljótandi vikur í skál, nornahár, gjallkúlur og margt fleira. Einnig var í boði að fara í “eldgosabíó”.

Spúandi eldfjöll föndruð

Eldgosabíóið

Að auki voru gerðar tvær tilraunir. Önnur þeirra var til þess að sýna hvernig öskjur myndast. Þá var uppblásin blaðra sett í kassa og var hún sem kvikuhólf, þar ofaná var búið til fjall úr hveiti. Þegar fjallið var tilbúið var loftið tekið úr blöðrunni og þá myndast askja í hveitifjallið, líkt og gerist þegar kvikuhólfið tæmist.

Tilraun sem útskýrir hvernig öskjur myndast

Hin tilraunin var sennilega hápunktur dagsins, en þá var gestum gefið það einstaka tækifæri að sjá Herðubreið gjósa. Útbúin var glæsileg Herðubreið úr pappamassa og inn í henni var plastflaska. Ofan í plastflöskuna var hellt töfrablöndu sem framkallaði gos upp úr Herðubreið við mikinn fögnuð viðstaddra.

Gestir fengu einstakt tækifæri til að sjá Herðubreið gjósa

Við mælum með að prófa þessar tilraunir, en þær eru frekar einfaldar í framkvæmd og mjög skemmtilegar.

Takk öll kærlega fyrir komuna og skemmtilega stund.

Fléttur og skófir skoðaðar gaumgæfulega á steinagreinarborðinu.