Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands 2024

Vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands upp á Vatnajökul var farin 8. - 14. júní.

21. júní 2024
Gasmælingar í Bárðarbungu. Mynd: Andri Gunnarsson

Vorferð Jöklarannsóknafélagsins hefur verið farin árlega síðan 1953. Ferðirnar sköpuðu vettvang fyrir jöklarannsóknir á þeim tíma þegar rannsóknastofnanir voru varla til og styrkir til mælinga engir. Vorferðirnar hafa í gegnum tíðina leitt til þess að mörg rannsóknarverkefni hafa orðið að veruleika og gefið fjölda fólks tækifæri til að komast upp á jökul og komast á staði sem fáir heimsækja alla jafna og fá innsýn inn í þau vísinda- og vöktunarverkefni sem unnið er að. Í nýafstaðinni ferð var unnið að verkefnum félagsins, Jarðvísindastofnunar, Landmælinga Íslands og Veðurstofu Íslands auk nemendaverkefna. Talsverð vinna fer fram við að sinna viðhaldi á mælitækjum sem staðsett eru víðsvegar um jökulinn,meðal annars veðurstöðvum, jarðskjálftamælistöðvum og GPS stöðvum sem eru reknar af Jarðvísindastofnun Íslands, Veðurstofunni og Landsvirkjun. Vöktun eldstöðva og jökullóna, mælingar á afkomu jökulsins og breytingum jökulsporða, kortlagning á landslaginu undir jöklinum eru meðal þeirra verkefna sem hafa mikla þýðingu fyrir innviði sem og almenning og íbúa í sveitarfélögunum kringum jökulinn. Rannsóknir á Vatnajökli eru nauðsynlegar fyrir vísindasamfélagið og mikilvægar fyrir alla starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs.

Viðhald á mælitækjum Veðurstofu Íslands á Urðarhálsi. Mynd: Hrafnhildur Hannesdóttir.

Afkomuborun á Bárðarbungu. Mynd: Nína Aradóttir

Í ferðinni var unnið að hefðbundnum verkefnum eins og afkomuborun í Grímsvötnum, Kverkfjöllum og Bárðarbungu, ísjármælingum við útfall Grímsvatna og í Bárðarbungu og gasmælingum í kötlum Bárðarbungu og á Saltaranum, ásamt viðhaldi á mælitækjum. Önnur verkefni í ár voru endurgerð á sögulegum ljósmyndum, drónamyndatökur af Grímsfjalli, uppsetning á ljósmyndastatífum fyrir “Jöklasýn”, ljósmyndaverkefni JÖRFÍ, og snjókjarnar voru teknir fyrir plastsýnatöku. Sett voru upp viðmiðunarmerki á jökulskerjum víðs vegar um jökulinn á vegum Landmælinga Íslands en stefnt er að loftmyndatöku af öllu landinu á næstu misserum. Merkin munu nýtast til að sannreyna og kvarða myndatökuna. Ýmsum verkefnum var einnig sinnt í skála Jöklarannsóknafélagsins á Grímsfjalli þar sem hópurinn gisti.

Uppsetning á viðmiðunarmerki fyir Landmælingar Íslands á Hamrinum. Útsýni yfir Sylgjujökul. Mynd: Nína Aradóttir

Ljósmyndastatíf á Hamrinum. Horft í átt að Köldukvíslarjökli og Hágöngum. Mynd: Andri Gunnarsson

Eitt af markmiðum þjóðgarðsins er að stuðla rannsóknum og sinna fræðslu. Til þess að þjóðgarðurinn geti sinnt fræðslu um jökulinn og nærliggjandi svæði er mikilvægt að viðhafa öflugt samtal við rannsóknahópa.

Nánar má fræðast um starfsemi félagsins á sýningunni Vorferð sem nú er uppi í Skaftárstofu á Vestursvæði þjóðgarðsins.

Skálarnir og farartækin á Grímsfjalli. Mynd: Andri Gunnarsson