Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Heimsminjaskrá

Til að komast á heimsminjaskrá UNESCO þarf staður eða fyrirbæri að hafa það sem kallað er einstakt gildi á heimsvísu. Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur á heimsminjaskrá 2019 vegna samspils flekaskila, möttulstróks og hveljökuls sem skapar einstök átök elds og íss

Árið 1972 var Heimsminjasamningur Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) undirritaður. Hluti samningsins er svokölluð heimsminjaskrá sem hvílir á þeirri forsendu að ákveðnir staðir á jörðinni hafi ótvírætt og einstakt alþjóðlegt gildi (e. outstanding universal value) í menningarlegu eða náttúrufarslegu tilliti og að þá beri að vernda sem sameiginlega arfleið mannkyns.

Heimsminjar eiga stóran sess í sögu og sjálfsmynd þjóða. Ísland fullgilti heimsminjasamninginn í desember 1995. Ráðuneyti mennta- og menningarmála og umhverfis-, orku- og auðlindamála bera ábyrgð á samningnum hér á landi og hafa frá upphafi unnið náið saman að innleiðingu hans. Vatnajökulsþjóðgarður var samþykktur á heimsminjaskrána á fundi heimsminjanefndarinnar í Bakú í Aserbaídsjan hinn 5. júlí 2019 á grundvelli einstakrar náttúru. Fyrir átti Ísland tvo staði á heimsminjaskrá, Þingvelli (2004) og Surtsey (2008).

Á heimsvísu hafa náttúru- og menningarminjar verið í mikilli hættu vegna heimstyrjalda, þéttbýlismyndunar, fátæktar, mengunar og náttúruhamfara. Einnig hafa nýir áhættuþættir bæst við, svo sem loftslagsbreytingar og aukin ásókn ferðamanna, en helsta ógnin sem steðjar að menningarminjum heimsins er þó vanræksla.

Lifandi samspil elds og íss

Vatnajökulsþjóðgarður var tilnefndur og skráður á heimsminjaskrá 2019 fyrir náttúruminjar undir áttunda viðmiði (criteria viii) sem kallar á að viðkomandi staður sé einstakt dæmi um mikilvægt stig í þróun jarðarinnar. Svæðið er því viðurkennt sem einstakt á heimsvísu vegna samspils elds og íss sem hefur leitt til stórbrotinnar náttúru og fjölbreyttra fyrirbæra.

Einstök náttúra

Nánar tiltekið er Vatnajökulsþjóðgarður kominn á heimsminjaskrá í fyrsta lagi vegna samspils flekaskila, möttulstróks og hveljökuls sem skapar einstök átök elds og íss. Ferlarnir sem um ræðir eru skorpuhreyfingar, eldvirkni, og jöklunarferlar. Viðlíka samspil þessara ferla er hvergi þekkt í veröldinni á þessum tímapunkti jarðsögunnar. Fjölbreyttar afurðir ferlanna eru greinilegar á yfirborði og fæstar þeirra finnast á öðrum heimsminjastöðum. Sem dæmi má nefna sprungur og misgengi (d. Heljargjá), móbergshryggi (d. Fögrufjöll) og stapa (d. Herðubreið) sem verða til við gos undir jökli – hryggir við gos á eldsprungum, stapar við gos úr einu gosopi, gígaraðir (d. Lakagígar) og dyngjur (d. Trölladyngja) sem verða til við sambærileg gos undir berum himni, auk jökulhlaupa og virkra jökulsanda. Í öðru lagi er Vatnajökulsþjóðgarður kominn á heimsminjaskrá vegna samspils loftslags og jökulíss og margvíslegra afurða þess – jöklalandslagsins – sem er óvenju fjölbreytt og aðgengilegt við jaðra fjölmargra skriðjökla þjóðgarðsins (d. jökullón, jökulker, jökulgarðar). Því er óhætt að segja að Vatnajökulsþjóðgarður sé einstök kennslustofa fyrir áhrif hamfarahlýnunar á jökla heimsins.

Eldur og ís

Flekaskil Ameríkuflekans og Evrasíuflekans, Mið-Atlantshafshryggurinn, ganga í gegnum endilangt landið frá Reykjanesi til Öxarfjarðar og þar með talið um norðvestanverðan Vatnajökulsþjóðgarð á u.þ.b. 200 km kafla. Flekaskilum fylgir eldvirkni. Undir flekaskilunum miðjum, þar sem nú er Bárðarbunga, er möttulstrókur úr iðrum jarðar sem veitir heitri kviku til yfirborðs og eykur á eldvirknina. Eldvirkni er því óvenjumikil á Íslandi öllu og ekki síst í Vatnajökulsþjóðgarði sem hýsir tvær af fjórum virkustu eldstöðvum landsins, Grímsvötn og Bárðarbungu. Vatnajökulsþjóðgarður er því ekki aðeins mótaður af núverandi átökum elds og íss heldur nær þessi átakasaga næstum þrjár milljónir ára aftur í tímann.

Hvannadalshnjúkur séður frá Skaftafellsheiði (mynd: Magnús Guðmundsson)

Umsóknarferlið

Myndband sem útskýrir heimsminjaskrá UNESCO á einfaldan hátt, athugið að myndabandið er á ensku.