Beint í efni

Akstur

Ábyrg ferðamennska felst í því að vera vel undirbúin, til að njóta betur og ferðast af öryggi og í sátt við náttúruna. Vegaflóran í Vatnajökulsþjóðgarði spannar sviðið frá albestu uppbyggðum vegum með slitlagi að frumstæðustu og mest krefjandi hálendisleiðum landsins - og allt þar á milli.

Vegir í Vatnajökulsþjóðgarði

Akstursleiðir í Vatnajökulsþjóðgarði eru skilgreindar í stjórnunar- og verndaráætlun (kafla 9.3).

Vatnajökulsþjóðgarður á náið samstarf við Vegagerðina. Vegagerðin veitir upplýsingar um færð og aðstæður hverju sinni. Viðhald vega er almennt á höndum Vegagerðarinnar.

Vegir í Vatnajökulsþjóðgarði eru skráðir í kortasjá þjóðgarðsins. Ennfremur er fjallað um alla vegi í þjóðgarðinum í Stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins. Vakin er athygli á að önnur gögn en ofangreind, geta innihaldið upplýsingar um aflagða vegi (mögulega aðgengilegir til niðurhals, sýndir á eldri kortum eða á kortum frá þriðja aðila). Akstur vélknúinna ökutækja á auðri jörð og ófrosinni er eingöngu heimill um skráða í Vatnajökulsþjóðgarði skv. áðurnefndu. Frá stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur orðið bylting í merkingu hálendisvega, meðal annars með aðstoð sjálfboðaliða.

Akstur á fjallvegum

Íslendingar eru frumkvöðlar í ferðalögum á jeppum og breyttum bílum. Hálendisvegir eru jafnan frumstæðir malarvegir sem hafa verið mótaðir í landslagið og yfir ár sem fljóta frjálsar og óbrúaðar.

Samkvæmt stöðlum Vegagerðarinnar, eru fjallvegir flokkaðir í þrjár vegtegundir: F1,F2 og F3, eftir því hversu góðra farartækja og mikillar reynslu akstur um þá krefst. Á vorin eru gefnar út upplýsingar um opnun hálendisvega hjá Vegagerðinni hér.

Akstur á snævi þakinni jörð

Umferð vélknúinna ökutækja er almennt bundin við vegi en undantekning frá þessu er akstur þar sem jörð er snævi þakin og frosin skv. nánari ákvæðum um vetrarakstur hér fyrir neðan og leyfum þjóðgarðsvarða byggða á undanþáguákvæðum reglugerðar . Heimilt er að aka á vélknúnum ökutækjum utan vega innan þjóðgarðsins svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin og þess gætt að ekki sé valdið skemmdum á vettvangi. Þetta gildir þó ekki í Jökulsárgljúfrum, í Skaftafelli, Hoffelli og í Öskju, sbr. afmörkun þessara svæða í reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 608/2008, sbr. reglugerð nr. 755/2009. Gæta þarf að skilmálum sem kunna að gilda um vetrarakstur á víðernum og svæðum með sérstökum

Akstur á jökli

Samkvæmt ákvæðum reglugerðar er heimilt er að fara um Vatnajökul á vélknúnum ökutækjum nema á Hvannadalshnjúk, Öræfajökli og í Kverkfjöllum, þar sem umferð vélknúinna ökutækja er óheimil.

Akstur á jökul krefst sérútbúinna ökutækja, sérlegrar reynslu af ferðalögum í síbreytilegu veðurfari, þekkingar á jöklum og færni af sleða/torfæruakstri.

Jökuljaðrar breytast ört og færi afar breytilegt milli árstíða og jafnvel innan dagsins.

Aðstæður við jökuljaðar (aðkomuleiðir á jökul) eru afar breytilegar milli ára, árstíma, vikna eða tíma dags, ef því er að skipta. Aðeins er gert ráð fyrir akstri upp á jökul að sumarlagi á eftirtöldum stöðum eftir leiðum:

  • Frá Svarthöfða upp á Köldukvíslarjökul
  • Í Jökulheimum upp á Tungnaárjökul
  • Frá Gæsavötnum á Dyngjujökul
  • Vestan Kistufells af Gæsavatnaleið upp á Dyngjujökul
  • Frá Háöldu innan Snæfells upp á Brúarjökul
  • Frá Jöklaseli upp á Skálafellsjökul
  • Á Breiðamerkursandi upp á Breiðamerkurjökul að Mávabyggðarönd austan við Breiðárlón

Dyngjujökull: Er farið er af Dyngjujökli á veturna í átt að skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs og Húsavíkur í Kverkfjöllum er mælst til þess að ferðamenn fylgi áreyrum Jökulsár á Fjöllum að GPS hniti:
N 64° 75.183' - W 016° 64.278' (við borholu).

Nánar um akstur á jökli

Hvað er utanvegaakstur

Óheimilt er að aka utan vega og eru háar fjársektir við brotum á þeim lögum. För eftir akstur utan vega sjást lengi og eru jafnvel þess eðlis að ógjörningur er að lagfæra, auk þess sem þau geta meðal annars haft áhrif á vöxt plantna og rennsli vatns. Vegir þjóðgarðsins eru sumir hverjir ævintýralegir í akstri, þar sem keyra þarf til dæmis í sandi, vatni, grófu hrauni, aur og vikri um krappar beygjur og brattar brekkur. Vegfarendur eru hvattir til þess að leita sér upplýsinga um vegi við hæfi, hvort heldur leitast er eftir ævintýrum í akstri eða sem mestum þægindum. Þá er gott að hafa í huga að ef vegfarendur treysta sér ekki til þess að halda sig á veginum, sökum vatns, þvottabretta eða annars, er best að snúa við og leita betri vegar eða áfangastaðar – ástand á vegi réttlætir aldrei akstur utan vegar. Verðið þið vitni að akstri utan vega hvetjum við ykkur eindregið til þess að tilkynna það til lögreglu eða landvarða.

Ökum slóðann

Átakið Ökum slóðann er framlag Ferðaklúbbsins 4×4 til að sporna við akstri utan slóða en það hefur verið eitt af þeirra helstu baráttumálum gegnum tíðina. Prentuð hafa verið út plaggöt á íslensku, ensku, frönsku, pólsku og kínversku sem við erum að dreifa og viljum að fari sem víðast.

Um akstur utan vega á vef Umhverfisstofnunar

Samkvæmt 1. málsgrein 31. greinar náttúruverndarlaga er akstur vélknúinna ökutækja utan vega óheimill. Þó er heimilt að aka á slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega utan þéttbýlis, svo lengi sem jörð sé frosin og ekki hætta á náttúruspjöllum. Umhverfisstofnun fer með eftirlit með framkvæmd lagana og veitir m.a. leyfi og umsagnir skv. ákvæðum laganna.