Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Herðubreiðarlindir

Herðubreiðarlindir er lindarsvæði og gróðurvin með einstöku dýralífi. Flatlent og greiðfært er norðaustan Herðubreiðar en varast ber að vanmeta fjarlægðir og villugjarnt getur verið í hrauninu. Um margar gönguleiðir er að velja í Herðubreiðarlindum, svo sem umhverfis Herðurbreiðarvötn, niður með Lindaá, inn að ármótum Jökulsár og Kreppu, auk fræðslustígs inn í hraunið. Upplýsingar gefa landverðir svæðisins.

Auk stuttra gönguleiða í næsta nágrenni lindanna, er fyrst lengri leiða að nefna stikaða gönguleið að rótum Herðubreiðar. Sú ganga tekur tvo tíma fram og til baka. Einnig er gönguleiðin að uppgöngustað á Herðubreið stikuð úr Lindum norður og síðan vestur með fjallsrótum (þrír tímar hvora leið). Leiðin upp á fjallið er óstikuð. Ef gengið er á Herðubreið, sem tekur um 12 tíma úr Lindum fram og til baka, er nauðsynlegt að leggja snemma af stað, sérstaklega þegar skyggja fer í ágúst. Fjallgangan tekur um þrjá tíma. Lagt er upp frá enda vegarins vestan fjallsins en þangað má aka og tekur aksturinn um tvo tíma úr Lindum. Ekið er áleiðis að Dyngjufjöllum og með rótum Herðubreiðartagla þvert um skarðið milli þeirra og Herðubreiðar. Gengið er eftir slakka er nær upp í gegnum hamrabeltið efst í fjallinu. Varist að fara annars staðar á fjallið. Uppgangan er oft torveld vegna snjóa og íss framan af sumri. Einnig má alltaf búast við grjóthruni og því er heppilegt að ganga ekki mjög þétt saman. Gerið ferðaáætlun, aflið upplýsinga hjá landvörðum og látið þá vita um fyrirætlanir ykkar.
Ef ganga á að Bræðrafelli við Kollóttudyngju er gengið frá uppgöngustað á Herðubreið, um Flötudyngju að skála Ferðafélags Akureyrar sem stendur austan við Bræðrafell. Leiðin er stikuð og tekur gangan 7-9 klst. úr Herðubreiðarlindum.

Í Ódáðahrauni er lítið um vatn en stundum má finna snjó ofan til í fjöllum fram eftir sumri. Göngufólk verður því að bera með sér vatn.

Ferðafélag Akureyrar rekur gistiskála og tjaldsvæði í Herðubreiðarlindum sem skálaverðir hafa umsjón með.

Víst er talið að Fjalla-Eyvindur hafi dvalið einn vetur í Herðubreiðarlindum. Eins er líklegt að í kjölfarið hafi hann í um áratug haldið til á hálendinu norðan Vatnajökuls ásamt Höllu konu sinni, að öllum líkindum í Hvannalindum. Saga Eyvindar og Höllu hefur lengi verið Íslendingum hugleikin og hafa orðið til flökkusögur um þau skötuhjú sem blandast hafa heimildum. Og þó að sumir líti á þau sem ótínda sauðaþjófa má halda til haga hve úrræðagóð og dugmikil þau hafa verið og hve langt sjálfsbjargarviðleitni og þráin eftir sjálfstæði getur fleytt fólki í nánast ómögulegum aðstæðum.

Fræðsla