Hjólreiðar
Undanfarin ár hafa vinsældir hjólreiða aukist og þónokkuð af ferðafólki hjólar t.d. yfir hálendið á sumrin. Stefna þjóðgarðsins er að fjölga sérmerktum hjólaleiðum en vegir eru auðvitað einnig fyrir hjól.
Í kafla 9.3.7. í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins segir eftirfarandi:
Umferð reiðhjóla í Vatnajökulsþjóðgarði er heimil á vegum, bílastæðum og merktum reiðhjólaleiðum. Umferð reiðhjóla á göngustígum og gönguleiðum er heimil þar sem ekki gilda sérstök bönn við reiðhjólaumferð, enda valdi það ekki spjöllum og full aðgát sé viðhöfð gagnvart göngufólki. Þjóðgarðsvörður getur heimilað umferð reiðhjóla á tilteknum reiðleiðum eða reiðstígum enda hafi hjólreiðafólk þá gát gagnvart hestaumferð og víki fyrir henni. Þjóðgarðsverðir geta bannað umferð reiðhjóla á göngustígum, göngu- og reiðleiðum þar sem umferð er mikil eða þar sem gróðurlendi getur hlotið skaða af. Að öðru leyti gilda almennir skilmálar um akstur og umferð um umferð reiðhjóla eftir því sem við getur átt.