Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Öryggisstefna

Vatnajökulsþjóðgarður stefnir að því að vera framsýnn í öryggismálum starfsfólks, gesta og hagaðila þjóðgarðsins með því að þróa ferla og aðferðir sem miða að því að lágmarka hættur í umhverfi og undirbúa viðbrögð við almanna- og náttúruvá.

Upplýsingagjöf við Laka (Mynd: Stefanía Ragnarsdóttir)

Markmið

Vatnajökulsþjóðgarður setur öryggi starfsfólks og gesta þjóðgarðsins í forgang með því að meta áhættu í starfsemi og umhverfi m.t.t. náttúru-, veður- og þjóðavár og starfar eftir forvarna- og viðbragðsáætlunum Vatnajökulsþjóðgarðs.

Vatnajökulsþjóðgarður nýtir örugga og áreiðanlega samskiptamáta við starfsfólk, gesti og hagaðila þjóðgarðsins til að tryggja upplýsingamiðlun ásamt því að yfirfara og staðla öryggis- og upplýsingaskilti í samráði við viðkomandi samstarfsaðila og aðra þjóðgarða.

Vatnajökulsþjóðgarður stuðlar að góðu samstarfi við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, lögreglu, almannavarnanefndir sveitarfélaga, svæðisstjórnir björgunarsveita, félagasamtök og aðra hagaðila þannig að viðbrögð og upplýsingamiðlun verði fumlaus, örugg og áreiðanleg. Vatnajökulsþjóðgarður leggur áherslu á gott samstarf við hagaðila byggða á atvinnustefnu þjóðgarðsins sem miðar að því efla umhverfis- og öryggisvitund þeirra.

Vatnajökulsþjóðgarður gerir forvarna- og viðbragðsáætlanir til að tryggja rétt viðbrögð ef vá ógnar velferð starfsfólks og gesta, lífríki, náttúru og menningarminjum þjóðgarðsins, t.d. vegna ágengra tegunda, mengunarslysa og aksturs utan vega.

Vatnajökulsþjóðgarður stefnir á:
1. að tryggja öruggt, heilsusamlegt og jákvætt vinnuumhverfi starfsfólks og að það hljóti ávallt þjálfun og nýti viðeigandi öryggisbúnað við störf sín.

2. að tryggja gestum þjóðgarðsins réttar upplýsingar um aðstæður og hættur á ferðaleiðum og stuðla að auknu öryggi.

3. að tryggja góð samskipti, samráð og upplýsingamiðlun við hagaðila.

4. að tryggja verndun lífríkis, náttúru og menningarminja innan þjóðgarðsins.