Skaftafell - Framtíðarsýn
Framtíðarsýn Skaftafells var verkefni sem unnið var á árunum 2020 til 2021 með það að markmiði að skýra framtíðarsýn fyrir Skaftafell sem lykilþjónustustað á suðursvæði þjóðgarðsins.
Framtíðarsýn Skaftafells - Greinargerð sem afhent var ráðherra 30. júní 2021:
Stýrihópur starfsfólks Vatnajökulsþjóðgarðs og ráðgjafafyrirtækisins Alta leiddi vinnuna. Ráðherra umhverfis- og auðlindamála var afhent greinargerð þann 30. júní 2021 sem innihélt afrakstur gagnaöflunar og samráðs um framtíðarsýn Skaftafells. Greinargerðin verður forsenda breytinga á deiliskipulagi Skaftafells.
Vinnuferlið:
Um mitt sumar 2020 var gerður samningur við fyrirtækið Alta varðandi ráðgjöf við verkefnið. Haustið 2020 hóf stýrihópur störf. Í stýrihópnum eru frá Vatnajökulsþjóðgarði; Gunnlaugur Róbertsson, Helga Árnadóttir og Hrafnhildur Ævarsdóttir og frá Alta; Árni Geirsson og Herborg Árnadóttir. Stýrihópur byrjaði á að safna grunngögnum og upplýsingum um skipulagsmál í Skaftafelli og annað tengt svæðinu. Í kjölfarið var haldinn fundur með svæðisráði suðursvæðis þar sem farið var yfir hagsmunaaðilagreiningu. Í framhaldinu var boðað til samráðsfunda við hina ýmsu aðila ásamt því að í boði var könnun hér á vefnum. Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir samráðsfundi. Að loknum samráðsfundum voru tekin saman gögn sem kynnt voru svæðisráði og stjórn þjóðgarðsins, sjá gögn hér fyrir neðan. Einnig fór stjórn í vettvangsferð í Skaftafell og fundaði með svæðisráði dagana 22.-23. mars 2021. Stjórn samþykkti á fundi þann 17.maí 2021 tillögu svæðisráðs suðursvæðis frá 94. fundi 26.4.2021, sjá útdrátt af valkostum hér fyrir neðan. Verkefnið fer nú í ferli deiliskipulags.
Útdráttur af valkostum stjórnar, samþykkt á fundi 17.5.2021:
Búseta starfsfólks:
Í Sandaseli verði lítil íbúðaþyrping sem hýsir 3-5 fjölskyldur fastra starfsmanna með heilsársbúsetu á svæðinu og 5-10 litlar íbúðir fyrir einhleypa og tímabundna starfsmenn. Aðrir starfsmenn búa á nærsvæðum.
Aðstaða einkafyrirtækja:
Í Skaftafelli verði aðstaða fyrir sölubása með samræmdu útliti sem fyrirtæki í kring geta8 nýtt sér og safnstaður fyrir ferðir (“meeting point?). Einnig starfsmannaaðstaða fyrir veru starfsmanna yfir daginn. Önnur aðstaða fyrirtækja er utan þjóðgarðs.
Framboð þjónustu:
Skaftafell verði áhugaverður viðkomu- og dvalarstaður ólíkra hópa sem vilja kynna sér náttúru svæðisins í bland við slökun og samveru með vinum og vandamönnum. Öll aðstaða sem þarf til nokkurra daga dvalar sé fyrir hendi.
Gestastofa:
Í Skaftafelli verði falleg en látlaus gestastofa, mögulega í núverandi húsi með viðbótum, með veglegri sýningu sem fjallar um sérstöðu svæðisins og setur það í stærra samhengi loftslagsbreytinga.
Þjónusta við nærsamfélag:
Helsta samfélagshlutverk þjóðgarðsins snúi að öryggi íbúa og gesta í Öræfum. Þar verði góð aðstaða fyrir viðbragðsaðila eins og björgunarsveitir, lögreglu og slökkvilið og fjöldahjálparstöð í neyð.
Húsin í heiðinni:
Með nauðsynlegum endurbótum verði Hæðir og Bölti notuð sem íbúðir fyrir starfsfólk og jafnvel bætt við nýjum íbúðarhúsum á þeim slóðum.
Vinnugögn sem lögð voru fyrir stjórn og svæðisráð
Yfirlit yfir samráðsfundi:
Dagsetning | Hagsmunaðili (ar) | Fjöldi |
---|---|---|
10. nóv. 2020 | Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli | 11 |
11. nóv. 2020 | Viðbragðsaðilar | 12 |
12. nóv. 2020 | Fagstofnanir og fræðasamfélag | 13 |
17. nóv. 2020 | Ferðaþjónusta | 19 |
18. nóv. 2020 | Bæjarstjórn og umhverfis- og skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Hornafjarðar | 8 |
18. nóv. 2020 | Náttúruverndarsamtök, útivistarsamtök | 5 |
27. nóv. 2020 | Vegagerðin | 2 |
30. nóv. 2020 | Svæðisráð vestursvæðis | 6 |
8. des. 2020 | Starfsmenn alls Vatnajökulsþjóðgarðs | 19 |
10. des. 2020 | Íbúar | 20 |
Nóv-des 2020 | Spurningakönnun | 32 |
Janúar 2021 | Landeigendur - 3 fundir | 3 |
Alls | 150 |
Yfirlit yfir fundi svæðisráðs suðursvæðis og stjórnar þar sem verkefnið hefur verið tekið fyrir
Dags | Nefnd | Fundarnúmer | Viðfangsefni |
---|---|---|---|
17.5.2021 | Stjórn | 159 | Staðfesting á valkostum svæðisráðs |
26.4.2021 | Svæðisráð suður | 94 | Samkomulag um valkosti |
23.3.2021 | Stjórn og svæðisráð | 157 | Vettvangsferð í Skaftafell og umræða um valkosti |
10.3.2021 | Svæðisráð suður | 92 | Kynning á fyrirhugaðri vettvangsferð í Skaftafell |
4.2.2021 | Svæðisráð suður | 91 | Kynning frá stýrihóp |
11.1.2021 | Stjórn | 150 | Kynning frá stýrihóp |
9.12.2020 | Svæðisráð suður | 89 | Upplýsingar um yfirstandandi vinnu |
2.11.2020 | Svæðisráð suður | 86 | Stýrihópur kynnir vinnuna. Hagsmunaaðilagreining |
5.10.2020 | Svæðisráð suður | 84 | Kynning á áætlun um skipulagsvinnuna |
29.6.2020 | Stjórn | 140 | Kynning á áætlun um skipulagsvinnuna og samning við Alta |
14.10.2019 | Stjórn | 134 | Stjórn tekur undir bókun svæðisráðs, vísar til framkv.stjóra og þjóðg.varðar. Kanna þarf fjármögnun |
1.10.2019 | Svæðisráð suður | 72 | Bókun um þörf á mótun framtíðarsýnar |