Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Sel

Selbærinn var upphaflega reistur um 1832 en bærinn sem nú stendur var reistur árið 1912 og sýnir vel hvernig flestir bæir voru byggðir í Öræfum fram á þriðja tug síðustu aldar. Bærinn er einn af þremur bæjum sem reistir voru í Skaftafellsheiðinni í kjölfar þess að Skeiðaráin færði sig sífellt nær og eyddi bæjarstæðum neðan við brekkurnar hvar Skaftafellsbærinn hafði verið frá landnámsöld. Búskap í Selinu lauk árið 1946 en síðustu ábúendur voru Runólfur Bjarnason og Ólöf Sigurðardóttir. Í dag er bærinn í vörslu Þjóðminjasafnsins og var endurbyggður á árunum 1970 til 1980.  

Í Selinu er fjósbaðstofa, niðri er fjós en baðstofan er á loftinu fyrir ofan. Með þessum hætti naut heimilisfólkið ylsins frá kúnum. Þessi búsetuháttur hélst einna lengst velli í Skaftafellssýslum. 
Gestir eru beðnir um að ganga um bæinn af virðingu og ganga ekki á þaki bæjarins. 

Gönguleið að Seli

S2

Svartifoss - Sjónarsker - Sel

5,8 km hringleið
2 klst
Auðveld

Svartifoss með sína formfögru stuðla er ein af náttúruperlum Skaftafells en leiðin gegnum skógarkjarrið býður ekki síður upp á einstaka upplifun á hvaða árstíma sem er. Á leiðinni má virða fyrir sér Hundafoss og Magnúsarfoss, frá Sjónarskeri er ústýni vítt til allra átta í góðu skyggni og gamli torfbærinn í Seli færir göngufólk til fyrri tíma búsetu í Skaftafelli.