Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Snæfell

Snæfellsöræfi er háslétta umhverfis hina fornu megineldstöð Snæfell og móbergshnjúkana sem umkringja fjallið. Snæfell vakir yfir ferðafólki enda fjórða hæsta fjall Íslands. Snæfellsöræfin eru sérstaklega merkileg fyrir að vera rík af gróðri í samanburði við önnur hálendissvæði sem skapar gott búsvæði fyrir fjölskrúðugt dýralíf, alþjóðlega mikilvægt votlendi og einstök landform. Ferðamenn sækja í svæðið yfir sumartímann en einnig er mikil aukning í vetrarferðamennsku enda mikil gróska í ferðaþjónustu á austurandi.

Tengdar gönguleiðir

S1

Snæfell

6,2 km aðra leið
4-7 klst.
Krefjandi

Tilkomumikið útsýni af hæsta fjalli utan jökla (1833 m.y.s.). Gönguleiðin er krefjandi og er stikuð frá bílastæði rétt innan við Snæfellsskála allt þar til jöklinum er náð. Göngutími fer eftir aðstæðum en er á bilinu 4 til 7 klukkustundir. Víða á gönguleiðinni er undirlag laust í sér. Mikilvægt er að göngufólk sé búið hlýjum fötum enda oft kalt á toppnum. Æskilegt er að hafa með sér göngustafi og brodda og nauðsynlegt er að hafa staðsetningartæki meðferðis þar sem efsti hluti leiðarinnar getur verið hulinn þoku. Látið landverði í Snæfellsskála vita af ferðum ykkar.

S2

Snæfell - Þjófadalir

7 km aðra leið
4-5 klst.
Krefjandi

Lagt er upp frá Snæfellsskála eða ekið suður að Langahnjúk og gengið upp með Þjófadalsánni um Þjófadali milli Snæfells og Þjófahnjúka.

S3

Bergskjár - Rölt frá Snæfellsskála

1 km
1 klst.
Krefjandi

Gengið er frá stikaðri leið norður melinn frá skálanum upp með læk að fossinum Bergskjá þar sem hægt er að virða fyrir sér fallegt gil og útsýnið að Hamrinum.

S4

Í faðmi jökla - Gestagata

Gestagata

Gestagata með númeruðum stikum sem tengjast fræðslu um jarðfræði svæðisins og áhrif hlýnandi loftslags á jöklana.
Frá bílastæði inn við jökul er gengið eftir stikaðri gestagötu að jökuljaðri þar sem Jökulsá í Fljótsdal á upptök sín. Þaðan er gengið til baka hringleið að bílastæði. Númeraðar stikur vísa í texta í bæklingi sem finna má í kassa á skilti eða hér fyrir neðan.

S5

Vestari-Sauðahnjúkur

1 km aðra leið
1 klst.
Krefjandi

Frá bílastæði við Vestari-Sauðahnjúk liggur stikuð gönguleið á hnjúkinn. Gengið er norðan í hnjúknum og upp á topp eftir vesturhlið hans. Frábært útsýni er yfir Vesturöræfi, Hálslón, Brúarjökul, Kverkfjöll og hálendið í norðri.