Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Reglur um notkun flygilda (dróna) í afþreyingarskyni

Almennt er notkun flygilda (dróna) í afþreyingarskyni heimil í Vatnajökulsþjóðgarði en á nokkrum svæðum gilda þó svæðisbundnar takmarkanir. Fylgja skal almennum reglum Samgöngustofu en einnig gilda neðangreindar reglur Vatnajökulsþjóðgarðs (almennar og svæðisbundnar). Ekki eru gefin út sérstök leyfi til notkunar flygilda (dróna) í afþreyingarskyni, en notendur eru þess í stað beðnir um að fylgja leiðbeiningunum á þessari síðu.

Almenn heimild til notkunar flygilda (dróna)

Til viðbótar almennum reglum Samgöngustofu um notkun flygilda, gilda neðangreindar reglur innan Vatnajökulsþjóðgarðs (almennar og svæðisbundnar).

Reglunum er ætlað að stuðla að eftirfarandi markmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs:

- Verndun dýralífs
- Öryggi gesta
- Gæðaupplifun gesta
- Mengunarvarnir

Athugið að neðangreindar reglur gilda eingöngu um notkun flygilda (dróna) í afþreyingarskyni. Ef verkefnið er á einhvern hátt í atvinnuskyni (kvikmyndagerð, auglýsingagerð, rannsókn o.þ.h.) er sótt um viðeigandi leyfi í þjónustugátt Vatnajökulsþjóðgarðs. Ef umsækjandi er í vafa um hvaða flokk verkefnið fellur, er best að senda fyrirspurn á [email protected].

Almennar reglur varðandi notkun flygilda (dróna) í afþreyingarskyni

  • Flug sé skipulagt og flugtíma haldið í lágmarki og fari fram utan þess tíma sem flestir gestir eru á svæðinu. Óheimilt er að fljúga flygildi í nágrenni og yfir fólki, nema til þess hafi fengist samþykki (t.d. í skipulögðum hópferðum). Forðast skal að trufla kyrrðarupplifun, öryggi gesta og persónuvernd.
  • Óheimilt er að trufla dýralíf. Komi óvænt upp að flugið hafi truflandi áhrif á fugla- og/eða dýralíf, skal því hætt samstundis.
  • Stjórnandi/eigandi flygildis ber alfarið ábyrgð á flygildinu á svæðinu, að það skaði ekki fólk, dýralíf, eða náttúruna og það skilji ekki eftir sig varanleg ummerki á neinn hátt. Ef flygildi brotlendir eða bilar, skal það og allir hlutar þess endurheimtir. Ef sýnt þykir að hættulegt sé að endurheimta flygildi sem hefur brotlent eða það finnst ekki, skal það tilkynnt þjóðgarðinum.
  • Víða eru vinsælir áfangastaðir í þjóðgarðinum nálægt þjóðgarðsmörkum. Þjóðgarðurinn hefur enga lögsögu utan þeirra og því er það ávallt á ábyrgð stjórnanda flygildis að kanna hvort afla þurfi leyfis landeigenda.
  • Að öðru leyti skal haga flugi ómannaðra loftfara í samræmi við reglugerð nr. 990/2017, um starfrækslu fjarstýrðra loftfara og leiðbeiningar á vefsíðu Samgöngustofu.
  • Veggspjald með almennum reglum Samgöngustofu

Svæðisbundin skilyrði

Á nokkrum svæðum í þjóðgarðinum gilda auk almennra reglna Samgöngustofu, svæðisbundin skilyrði sem útskýrð eru hér fyrir neðan.

Helga Hvanndal

Flokkur I: Svæði þar sem notkun flygilda (dróna) er óheimil vegna kyrrðarupplifunar og/eða fuglaverndar

Á eftirtöldum svæðum er óheimilt að fljúga flygildum í afþreyingarskyni:

  • Skaftafell (Svartifoss, Skaftafellsheiði, Morsárdalur, Kjós og Skaftafellsfjöll o.fl.) – vegna fuglaverndar, öryggis og til að tryggja gæðaupplifun gesta. Eini staðurinn í Skaftafelli þar sem heimilt er að nota flygildi er fyrir framan Skaftafellsjökul (sjá flokk III).
  • Jökulsárlón og Fellsfjara. Frá 15. apríl til 15. júlí – vegna fuglaverndar. Sjá flokk IV fyrir flug utan þessa árstíma.
  • Jökulsárgljúfur (m.a. Ásbyrgi, Vesturdalur, Hljóðaklettar, Hafragilsfoss) – vegna fuglaverndar, öryggis og til að tryggja gæðaupplifun gesta. Þó er heimilt að fljúga dróna við Dettifoss vestan ár (sjá flokk V).
  • Askja - Til að tryggja kyrrðarupplifun gesta.

Flokkur II: Svæði þar sem notkun flygilda (dróna) er háð munnlegu leyfi landvarða

Á eftirtöldum svæðum geta landverðir veitt munnlegt leyfi fyrir notkun flygilda (dróna). Forsendur leyfis byggja á mati á ástandi lífríkis og/eða tilteknum tíma dags þegar umferð ferðafólks er minni en annars (t.d. snemma morguns eða seinnipart/kvöld). Landvörður skráir leyfisveitinguna á þar til gert eyðublað. Þetta á við á eftirtöldum svæðum:

  1. Þjónustusvæði við Drekagil
  2. Herðubreiðarlindir
  3. Hvannalindir
  4. Kverkjökull
  5. Þjónustusvæði við Sigurðarskála
  6. Þjónustusvæði við Snæfellsskála
  7. Eldgjá
  8. Laki

Flokkur III: Skaftafellsjökull - Takmarkanir og heimildir

Notkun flygilda (dróna) framan við Skaftafellsjökul er heimil á vissum tímum dags, en annars staðar í Skaftafelli (Svartifoss, Skaftafellsheiði, Morsárdalur, Kjós og Skaftafellsfjöll o.fl.) er notkun flygilda (dróna) í afþreyingarskyni óheimil (sjá rauðskyggða svæði á kortinu til hliðar) - vegna fuglaverndar, öryggis og til að tryggja gæðaupplifun gesta.


Notkun flygilda (dróna) er heimil við Skaftafellsjökul á eftirfarandi tímum dags, sem eru misjafnir eftir árstíma og sólargangi:

  • 1. maí til 15. september - fyrir kl 09:00 eða eftir kl. 18:00
  • 15. september til 31. október - fyrir kl 10:00 eða eftir kl. 17:00
  • 1. nóvember til 28/29 febrúar - fyrir kl 11:00 eða eftir kl. 15:00
  • 1. mars til 30. apríl - fyrir kl: 10:00 eða eftir kl. 17:00

Flokkur IV: Jökulsárlón og Fellsfjara - Takmarkanir og heimildir

Ekki er heimilt að fljúga flygildi (dróna) á tímabilinu 15. apríl til 15. júlí vegna fuglaverndar.

Á öðrum árstímum gilda reglur um tíma dags, sem eru misjafnar eftir árstíma og sólargangi.

Á eftirfarandi tímum dags má nota flygildi (dróna) á svæðinu (sjá kort til hliðar) og þarf ekki að sækja um sérstakt leyfi vegna þess:

  • 15. júlí til 21. september – fyrir kl. 09:00 eða eftir kl. 18:00.
  • 22. september til 21. október – fyrir kl. 10:00 eða eftir kl. 17:00.
  • 22. október til 21. nóvember – fyrir kl. 11:00 eða eftir kl. 15:00.
  • 22. nóvember til 21. janúar – fyrir kl. 12:00 eða eftir kl. 14:00.
  • 22. janúar til 21. febrúar – fyrir kl. 11:00 eða eftir kl. 15:00.
  • 22. febrúar til 21. mars – fyrir kl. 10:00 eða eftir kl. 17:00.
  • 22. mars til 15. apríl – fyrir kl. 09:00 eða eftir kl. 18:00.

Nokkur þyrluumferð er við Jökulsárlón. Fjarstýrð loftför skulu ávallt víkja fyrir annarri flugumferð, sbr. reglugerð nr. 990/2017.

Á svæðinu sem myndin hér til hliðar sýnir (rauðskyggt) er almennt mikil umferð gesta. Notkun flygilda (dróna) á því svæði er því ávallt óheimilt samkvæmt reglugerð nr. 990/2017.

Flokkur V: Dettifoss vestan ár - Takmarkanir og heimildir

Notkun flygilda (dróna) við Dettifoss vestan ár er heimilt á vissum tímum dags, en annars staðar í Jökulsárgljúfrum er notkun flygilda (dróna) í afþreyingarskyni óheimil.

Notkun flygilda (dróna) er heimil á eftirfarandi tímum dags, sem eru misjafnir eftir árstíma og sólargangi:

  • 1. mars til 30. apríl – fyrir kl. 10:00 eða eftir kl. 16:00.
  • 1. maí til 31. ágúst – fyrir kl. 8:00 eða eftir kl. 18:00.
  • 1. september til 31. október – fyrir kl. 10:00 eða eftir kl. 16:00
  • 1. nóvember til 29. febrúar – engar takmarkanir á tíma dags en almenn skilyrði gilda.

Innan þjóðgarðsmarka má einungis fljúga yfir gljúfrinu sjálfu. Vegna fuglaverndar er óheimilt að fljúga norðar en að nyrsta útsýnispallinum vestan við Dettifoss (rauðskyggt svæði á korti byrjar). Austan Jökulsár er náttúruvætti á vegum Umhverfisstofnunar (grænskyggt) og sunnan fossins er einkaland . Á göngustígum að fossunum gilda almenn skilyrði, þar með talið bann við flugi yfir mannfjölda

Vakin er athygli á því að í tilfelli notkunar flygilda (dróna) við leit- eða björgunarstörf, þurfa lögregla og björgunarsveitir ekki að afla leyfis vegna sinna starfa. Þess er þó óskað að starsfólk þjóðgarðsins verði látið vita af slíku, eftir atvikum eftir á.