Ársskýrsla 2022
Vatnajökulsþjóðgarður er þjóðgarður okkar allra
Ávarp framkvæmdastjóra
Það lifnaði yfir mannlífinu í Vatnajökulsþjóðgarði árið 2022 þegar samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldurs var að fullu aflétt. Stórkostleg náttúra þjóðgarðsins er einstök á heimsmælikvarða og heimsókn í þjóðgarðinn kærkomin fyrir ferðaþyrsta gesti sem fjölgaði jafnt og þétt þegar leið á árið.
Þegar landsvæði er gert að þjóðgarði felur það í sér yfirlýsingu um að svæðið hafi að geyma sérstætt lífríki, jarðminjar og/eða landslag sem vert er að vernda, auk þess sem litið er til mikilvægis svæðisins í menningarlegu eða sögulegu tilliti. Með friðlýsingunni verður til umgjörð sem m.a. felur í sér vettvang fyrir samtal og verkfæri til stefnumótunar og ákvarðanatöku t.d. um vernd, nýtingu, aðgengi og álagsstýringu. Dreifstýrt stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs, með aðkomu fulltrúa sveitarstjórna og hagsmunaaðila að stjórn og svæðisráðum, er einstakt og einn helsti styrkur þjóðgarðsins. Það tryggir þátttöku fjölbreytts hóps fólks í stefnumótun og ákvarðanatöku og endurspeglar þá hugsun að þjóðgarðurinn tilheyri þjóðinni allri.
Undirbúningur breytinga á ákvæðum stjórnunar- og verndaráætlunar um veiðar á austursvæði árið 2022 leiddi í ljós aukna getu þjóðgarðsins til að tryggja vandað samtal og gagnaöflun í aðdraganda ákvörðunar um samspil nýtingar og verndar innan þjóðgarðsins. Afraksturinn var m.a. metnaðarfull vöktunaráætlun í samstarfi við Náttúrustofu Austurlands og Náttúrufræðistofnun Íslands um gagnaöflun og rannsóknir sem nýtast munu við ákvarðanatöku á svæðinu til framtíðar.
Starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs hefur þegar á heildina er litið eflst ár frá ári. Ársverkum fjölgaði úr 49,5 í 65,6 milli áranna 2021 og 2022 og er þar fyrst og fremst um að ræða liðsauka yfir sumartímann en 128 einstaklingar voru við störf í júlí 2022. Miðlæg stoðþjónusta hefur verið efld og starfshættir bættir. Þá hefur fjárhagslegur rekstur gengið vel og á árinu 2022 voru teknar mikilvægar ákvarðanir um aukna innheimtu sértekna til að gera þjóðgarðinn enn betur í stakk búinn til að takast á við lögbundin verkefni sín.
Aðsetur þjóðgarðsins var flutt til Hafnar í Hornafirði þann 1. september 2022 samkvæmt ákvörðun umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Ákvörðunin felur í sér eflingu meginstarfsstöðvarinnar á Höfn og undirstrikar jafnframt mikilvægi starfsemi allra svæða þjóðgarðsins en yfir 95% starfsmanna hans starfa utan höfuðborgarsvæðisins.
Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfar fjölbreyttur hópur fólks sem leggur metnað sinn í að sem flestir geti notið hinnar stórfenglegu náttúru samhliða því að gætt er að þeim miklu verðmætum sem í henni felast. Við hvetjum alla til að koma og upplifa þjóðgarðinn á sinn hátt og á sínum forsendum.
Vatnajökulsþjóðgarður er þjóðgarðurinn okkar allra.
Norðursvæði
Gljúfrastofa og Jökulsárgljúfur
Líkt og oft áður var vetur konungur fremur lengi að sleppa tökunum á norðausturhluta landsins, það voraði hægt og dagar maímánaðar einkenndust af kulda og frostnóttum, afleiðingarnar urðu þær að snjór bráðnaði hægt, aurbleyta þakti göngustíga langt fram í júní og gróður fór hægt af stað. Ólíkt undangengnu sumri var sumarið einnig fremur kalt, hitatölur urðu ekki háar, það rigndi mikið og gular viðvarnir sýndu sig oft á veðurkortunum. Öllum COVID-19 takmörkunum var aflétt þetta árið og það létti mikið á því álagi sem einkennt hafði starfsemina undanfarin 2 ár. Íslendingar nýttu sér nýfengið frelsið og ferðuðust með sólinni innanlands eða lögðu jafnvel frekar land undir fót og flugu erlendis. Fjöldi gesta í Jökulsárgljúfrum minnkaði í samræmi við það.
Norðursvæði - hálendi
Gígur gestastofa, Herðubreiðarlindir, Askja og austurafrétt Bárðdæla
Árið 2022 einkennist af köldu veðri og vaxandi starfsemi norður-hálendis eftir að þjóðgarðurinn var stækkaður í september 2021. Aðstoðarþjóðgarðsvörður tók til starfa í byrjun árs 2022. Landvarðastöðugildi fjölgaði á milli ára í framhaldi af stækkun og verkefnin urðu fleiri og fjölbreyttari. Í fyrsta skipti var landvörður staðsettur á Skútustöðum sem sinnti landvörslu á nýju svæði og nyrðri enda norður-hálendis. Einnig var ,,Flakkaravakt‘‘ endurvakin og gátu landverðir með því sinnt vesturhluta svæðisins betur. Gestafjöldi var svipaður á milli ára þrátt fyrir Covid ár árið á undan en það skýrist mest af algjörri andstæðu í veðri. Eftir eitt besta sumar í minnum landvarða svæðsins 2021 var sumarið 2022 eitt það kaldasta og snjóþyngsta síðari ára. Þetta hafði áhrif á umferð og þá sérstaklega íslenska gesti. Oftar en einu sinni varð of snjóþungt fyrir litla fjórhjóladrifnabíla alla leið upp að Vikraborgum. Landverðir fluttu inn í Drekagil 16. júní og var þá talsverður snjór ennþá í kring um húsið og upp að Vikraborgum. Mikið var um vísindafólk á svæðinu meðal annars tvo stór verkefni frá NASA. Haustið einkenndist svo að verkefnum tengdum rísandi gestastofu.
Suðursvæði
Skaftafellsstofa og Skaftafell
Starfsemin í Skaftafelli fór smám saman að falla í fyrra horf eftir því sem leið á árið. Fyrsta mánuð ársins var gestastofa og tjaldsvæði lokað vegna heimsfaraldurs. Starfsfólk sinnti eftir sem áður daglegum verkefnum þar sem gestir héldu áfram að sækja Skaftafell heim.
Suðursvæði
Gamlabúð og Breiðamerkursandur
Breytingar áttu sér stað í rekstri Gömlubúðar á árinu, þegar landvarsla færðist alfarið yfir á landverði á Breiðamerkursandi, og tveir þjónustufulltrúar stóðu vaktina í Gömlubúð. Gestakomur í Gömlubúð voru með ágætasta móti, en þó hefur heimsóknum fækkað töluvert síðustu árin. Við Jökulsárlón er ekkert lát á fjölgun ferðamanna eftir heimsfaraldur Covid-19, en umferð ferðamanna um Jökulsárlón jókst um rúmlega 60% fá 2021, en um 844 þúsund gestir heimsóttu svæðið á árinu. Í lok árs var gestastofunni í Gömlubúð lokað og unnið er að þarfagreiningu fyrir nýja gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Höfn í Hornafirði.
Austursvæði
Snæfellsstofa, Snæfell og Krepputunga
Á heildina litið gekk árið vel þótt veikindi starfsmanna hafi sett strik í reikninginn. Mikið álag var á stjórnendum og mörgum verkefnum og smærri framkvæmdum varð að skjóta á frest eða sleppa vegna þessa. Í nógu var þó að sýsla enda þjóðgarðurinn orðinn rótgróinn hluti af samfélaginu fyrir austan og í fjölmörgum samstarfsverkefnum við ýmsa aðila. Áhersla var lögð á að forgangsraða verkefnum og sinna starfsfólki vel en það er ekki síst góðum starfshópi að þakka hversu vel tókst til.
Vestursvæði
Skaftárstofa, Nýidalur, Hrauneyjar, Tungnaáröræfi, Eldgjá, Langisjór og Lakagígar
Fáir voru á ferð á Skaftárstofu í upphafi árs, en svo fór að vora og lífið komst í sinn venjulega takt. Hálendið opnaði reyndar óvenju seint, enda talsverður snjór, en í júlíbyrjun voru allir landverðir komnir til fjalla, tilbúnir að taka á móti gestum, með bros á vör og upplýsingar á takteinum. Byggingu gestastofunnar við Sönghól miðar jafnt og þétt og undirbúningur fyrir opnun hennar er í fullum gangi. Fjárveiting fékkst fyrir árið 2022, til að ráða verkefnisstjóra að undirbúningnum. Því heilsársstöðugildi var breytt í þrjár stöður, hluta úr ári og voru þrír gamalreyndir sumarlandverðir af svæðinu, að störfum á skrifstofunni frá því á haustmánuðum. Jóna Björk, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar, fór í ársleyfi í haust og Erla Þórey, yfirlandvörður á Skaftárstofu, lét af störfum í ágúst. Í lok árs var svo ráðið í nýja heilsársstöðu sérfræðings á vestursvæði og eru helstu viðfangsefni hans umsjón með gestastofunni og starfinu í kringum hana.