Stjórnfyrirkomulag og skipurit
Vatnajökulsþjóðgarður er í senn landsvæði og sjálfstæð ríkisstofnun, sem heyrir beint undir umhverfis- og loftslagsráðuneyti. Stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs er dreifstýrt og mjög þátttökumiðað, sem er afar sérstætt fyrir ríkisstofnun á Íslandi.
Stjórnfyrirkomulag
Nánari upplýsingar um stjórnfyrirkomulag má nálgast í leiðbeiningum um skipurit og stjórnskipulag Vatnajökulsþjóðgarðs.
Sérstaða stjórnfyrirkomulagsins felst að miklu leyti í því að sveitarstjórnir á landsvæði þjóðgarðsins og hagsmunaaðilar tilnefna aðal- og áheyrnarfulltrúa í stjórn og svæðisráð. Aðkoma þessara aðila tryggir aðkomu sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka og ýmissa hagaðila að stefnumótun og ákvarðanatöku sem getur varðað þeirra hagsmuni innan þjóðgarðs.
Einn af meginkostum fyrirkomulagsins er virkt og víðtækt samtal um stefnumótun og önnur málefni landsvæðis sem nær til 15% landsins og er í eigu ríkisins að mestu leyti.
Áskoranir felast m.a. í aðkomu margra að ákvarðanatöku, flækjustigi og tímafrekum ferli mála. Þá þarf ávallt að tryggja að virtar séu meginreglur stjórnsýsluréttarins og að málefnaleg sjónarmið og almannahagsmunir liggi að baki hverri ákvörðun. Einnig þarf fjárhagslegur rekstur þjóðgarðsins að vera innan fjárheimilda og í samræmi við lög um opinber fjármál og aðra viðeigandi löggjöf. Það er því viðvarandi verkefni að vanda stjórnhætti og tryggja skilvirka og lögmæta ákvarðanatöku og fyrirmyndar rekstur þjóðgarðsins. Efling miðlægrar stoðþjónustu undanfarin ár er mikilvægur liður í þessu átaki.
Skipurit Vatnajökulsþjóðgarðs
Framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs er skipaður af ráðherra til fimm ára í senn, samkvæmt tillögum stjórnar þjóðgarðsins. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur þjóðgarðsins í umboði stjórnar.
Æðstu yfirmenn á svæðunum eru þjóðgarðsverðir. Sex slíkir starfa innan Vatnajökulsþjóðgarðs, tveir á suðursvæði, tveir á norðursvæði, einn á austursvæði og einn á vestursvæði.
Rekstrarsvæði og svæðisráð
Þjóðgarðinum er samkvæmt lögum skipt í fjögur rekstrarsvæði og er eitt sex manna svæðisráð á hverju þeirra. Hlutverk svæðisráða er fyrst og fremst ráðgefandi og koma þau að stefnumótun og rekstraráætlun fyrir viðkomandi svæði.
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs
Með stjórn stofnunarinnar og umsjón með rekstri þjóðgarðsins fer sérstök stjórn skipuð af ráðherra.