Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Umhverfis- og loftslagsstefna

Vatnajökulsþjóðgarður er til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og leggur áherslu á að miðla fræðslu til almennings um loftslags- og umhverfismál. Vatnajökulsþjóðgarður hefur jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag með ákvörðunartöku sinni og þjónustu

Framtíðarsýn

Vatnajökulsþjóðgarður er til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og leggur áherslu á að miðla fræðslu til almennings um loftslags- og umhverfismál. Vatnajökulsþjóðgarður hefur jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag með ákvörðunartöku sinni og þjónustu. Markmiðið er að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi stofnunarinnar í lágmarki.

Meginmarkmið

  • Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) á stöðugildi um 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2019. Á meðan starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs skilar af sér gróðurhúsalofttegundum mun stofnunin hlutleysa losunina með kaupum á vottuðum kolefniseiningum.
  • Að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu innan þjóðgarðsins, meðal annars með því að setja skýr umhverfisviðmið við leyfisveitingar vegna atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum.

Gildissvið og umfang

Stefnan tekur til umhverfisáhrifa af öllum innri og ytri rekstri og varðar allar starfsstöðvar og starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs. Þýðingarmiklir umhverfisþættir í rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs eru:

  • Ferðir á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs
  • Innkaup á vörum og þjónustu
  • Úrgangsmál
  • Orkunotkun

Forsendur

Vatnajökulsþjóðgarður tryggir að lagalegum kröfum og reglum sem tengjast allri starfsemi hans sé fylgt í umhverfisstarfi stofnunarinnar.Skuldbindingar íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu, heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna, lögum um lofslagsmálog yfirlýsing forstöðumanna umhverfis-, orku- ogloftslagsráðuneyti, eru grunnur að stefnunni.

Eftirfylgni

Vatnajökulsþjóðgarður tekur þátt í Grænum skrefum ríkisstofnana og Vakanum. Árlega er birt endurskoðað grænt bókhald og sjálfbærniskýrsla stofnunarinnar á vefnum og í ársskýrslu. Staða umhverfismála og niðurstöður mælanlegra markmiða eru reglulega kynnt fyrir starfsfólki.

Til að ná sem bestum árangri eru umhverfisþættir þjóðgarðsins vaktaðir og markvisst unnið að umbótum í samræmi við ISO 14001 staðalinn.

Þjóðgarðsverðir ásamt framkvæmdastjóra eru ábyrg fyrir innleiðingu umhverfis- og loftslagsstefnu. Stefnan er uppfærð eftir þörfum og rýnd á árlegum rýnifundi stjórnenda.

Sjálfbærniuppgjör

Frá árinu 2019 hefur Vatnajökulsþjóðgarður tekið saman umhverfisuppgjör fyrir starfsemi þjóðgarðsins, skipt niður á rekstarsvæði. Samantekin er í tveimur skýrslum, fyrir árin 2019 og 2020 annars vegar og 2021 og 2022 hinsvegar. Uppgjörið byggir á þeim upplýsingum sem umhverfishugbúnaður þjóðgarðsins,Klappir, hefur safnað ásamt öðrum gögnum frá þjóðgarðinum. Frá árinu 2018 hefur Vatnajökulsþjóðgarður einnig skilað inn Grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar.
Í uppgjörinu kemur m.a. fram að losunarkræfni starfsmanna minnkaði um 16 % milli áranna 2022 og 2019, fór úr 3.139 kgCO2/stöðugildi í 2.623 kgCO2/stöðugildi.
Vatnajökulsþjóðgarður var kolefnishlutlausstofnun fyrir árin 2021 og 2022 með kaupum á staðfestum kolefniseiningum frá kolefnisjöfnunarvettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Stærstu tækifærin til úrbóta í umhverfisstjórnun þjóðgarðsins eru í samgöngum og flokkun úrgangs. Stærstur hluti úrgangs kemur frá stóru tjaldsvæðunum í Skaftafelli og í Jökulsárgljúfrum hvar unnið er að úrbótum til að bæta möguleika gesta til flokkunar. Í samgöngum er bæði unnið að virkjun starfsmanna til vistvænni ferðamáta sem og að fjölga vistvænum farartækjum. Vert er að taka fram að mikið af starfsemi þjóðgarðsins fer fram á hálendi Íslands þar sem notkun stærri, jarðefnaknúinna ökutækja er enn stór hluti af starfseminni.