Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun 2021 - 3. útgáfa

21.6.2021 auglýsti stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs til kynningar tillögu að breytingum á Stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins. Tillagan var opin til umsagnar til og með 9. ágúst 2021. Í kjölfar úrvinnslu umsagna var tillagan tekin til umræðu í stjórn og svæðisráðum og fór að lokum til ráðherra.

Breytingatillagan náði til ákvæða um loftför, tjöldun, þjónustusvæði, vegi, gönguleiðir, smávirkjanir, verndarsvæði og nýmyndanir. Einnig voru texti og kort í einstökum köflum uppfærð vegna lagabreytinga eða stækkunar þjóðgarðsins. Við tillögugerðina var lögð áhersla á að fjalla einungis um afmörkuð atriði, þar sem heildarendurskoðun á stjórnunar- og verndaráætlun stendur fyrir dyrum.
Tillagan var aðgengileg til og með 9. ágúst 2021 og voru áhugasamir hvattir til að kynna sér efni hennar. Lögbundnum umsagnaraðilum og skilgreindum hagsmunaaðilum var send tillagan í tölvupósti.

Tillagan var kynnt á fimm veffundum, einn fyrir hver svæði þjóðgarðsins og einn fyrir þjóðgarðinn í heild. Fundirnir fóru fram dagana 31.5.2021 til 7. júní 2021.
Að neðan eru gögnin eins og þau lágu frammi til kynningar.

Forsaga breytingartillögu 3. útgáfu stjórnunar- og verndaráætlunar

Á undanförnum árum hafa ýmsar breytingar á stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs verið ræddar og mótaðar en ekki hefur náðst að ljúka ferlinu og ganga frá þeim formlega. Nýverið hafa bæst við nýjar hugmyndir að breytingum og sumar áður framkomnar tillögur eru ekki lengur uppi á borðum. Þá hafa verið unnir eða eru í vinnslu nýir viðaukar við áætlunina vegna stækkunar þjóðgarðsins auk þess sem uppfæra þarf ýmsar tilvísanir í lög og reglugerðir. Nú er því talin mikil þörf á að útbúa nýja útgáfu af stjórnunar- og verndaráætlun þannig að tillögur að breytingum verði formlega afgreiddar og til verði uppfært skjal sem nær yfir allan þjóðgarðinn, með þegar samþykktum viðaukum og öðrum breytingum.

Verkefnislýsing

Í verkefnislýsingu var lýst efni áformaðra breytinga á stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs og vinnuferli við breytingarnar. Lýsingin var sett fram sem fyrsta skref í mótun breytingatillögu og tilgangur hennar var að kynna áformin og ferli við vinnslu breytinganna, þannig að umsagnaraðilar og þeir sem teldu sig málið varða gætu komið að ábendingum sem vörðuðu tillögugerðina.
Verkefnislýsing var send til umsagnar lögbundinna umsagnaraðila (Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnun), auk tiltekinna hagsmunaaðila.

Þær breytingar sem ákveðið var að fjalla um við tillögugerðina varða eftirtalin atriði:

  • Ákvæði um loftför, lágflug og lendingarstað, almenn ákvæði og ​á tilteknum svæðum t.d. á Snæfellsöræfum.
  • Ákvæði um tjöldun ​í þjóðgarðinum.
  • Breytingar á þjónustusvæðum​ eða ákvæði fyrir þau, t.d. við Snæfell, við Dettifoss, í Ásbyrgi, í Vesturdal, við Kverkjökul, við Galta og Laka, í Skaftafelli, við Mývatn og fleiri svæði. Önnur svæði geta komið til.
  • Breytingar á vegum​, þ.m.t. legu vegar fyrir framan jökul við Snæfell, nýjan veg að Falljökli og lengingu vegar að Breiðamerkurjökli. Einnig verða breytingar á flokkun vega til umfjöllunar.
  • Göngubrýr og gönguleiðir,​ þ.m.t. ný göngubrú við Kolgrímu (sem er rétt utan þjóðgarðsmarka), niðurfellingu göngubrúar við Efstafellsgil í Hoffelli og nýjar gönguleiðir á Snæfellsöræfum.
  • Smávirkjanir​, þ.e. tillögur að stefnu um þær.
  • Ákvæði fyrir einstök verndarsvæði​, þ.m.t. jökulsker í Esjufjöllum, stuðlaberg á Heinabergssvæði og búsetulandslag í Skaftafelli.
  • Stefna um stjórnun á svæðum sem breytast vegna náttúruhamfara​ og kunna að vekja sérstakan áhuga gesta.
  • Atvinnustefnu​ en fyrir liggur samþykkt atvinnustefna sem verður hluti af breyttri stjórnunar- og verndaráætlun.
  • Þegar samþykktar breytingar vegna stækkunar þjóðgarðs​, sem settar hafa verið fram í viðaukum. Efni viðaukanna er þá innlimað inn í stjórnunar- og verndaráætlunina.
  • Skýringarkort​, þ.e. uppfærslu þeirra m.v. þegar samþykktar stækkanir og tillögur að breytingum.
  • Uppfærsla á texta​ á ýmsum stöðum m.v. lagabreytingar og breyttar forsendur vegna stækkunar þjóðgarðs eða annarra orðinna breytinga. Ekki er um efnislegar breytingar að ræða.