5 græn skref hjá Vatnajökulsþjóðgarði
Í úttekt Umhverfisstofnunar í lok ágúst var það staðfest að Vatnajökulsþjóðgarður hefur lokið öllum fimm grænu skrefunum.
Græn skref er verkefni fyrir ríkisstofnanir sem vilja efla sitt umhverfisstarf. Á vefsíðu Grænna skrefa kemur fram að 176 stofnanir með 546 starfsstöðvar séu þátttakendur og 195 starfsstöðvar séu með öll skrefin fimm.
Undanfarin ár hefur Vatnajökulsþjóðgarður unnið jafnt og þétt að því að klára skrefin. Fimmta og síðasta skrefið felur í sér aðgerðir sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi. Við vinnslu síðasta skrefsins var m.a. gerð uppfærsla á Umhverfis- og loftslagsstefnu með aðgerðaráætlun til ársins 2026.
Innleiðing grænna skrefa er samvinnuverkefni alls starfsfólks og var áfanganum því fagnað með veglegum, grænum kökum með kaffinu einn daginn.