Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Sjálfbærniuppgjör og aðgerðaráætlun í umhverfis- og loftslagsmálum 

Vatnajökulsþjóðgarður hefur uppfært umhverfis- og loftslagsstefnu sína og samhliða unnið aðgerðaráætlun til loka árs 2026. Einnig er búið að ganga frá sjálfbærniuppgjöri þjóðgarðsins fyrir árið 2023.

6. nóvember 2024

Í uppfærðri stefnu kemur fram að framtíðarsýn Vatnajökulsþjóðgarðs er að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og leggja áherslu á að miðla fræðslu til almennings um loftslags- og umhverfismál. Markmið í uppfærðri umhverfis- og loftslagsstefnu er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) á stöðugildi um 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 2019. Á meðan starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs skilar af sér gróðurhúsalofttegundum mun stofnunin hlutleysa losunina með kaupum á vottuðum kolefniseiningum. Einnig er það markmið þjóðgarðsins að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu innan þjóðgarðsins, meðal annars með því að setja skýr umhverfisviðmið við leyfisveitingar vegna atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum.

Umhverfis- og loftslagsstefnuna má nálgast í heild hér.

Aðgerðaráætlun stefnunnar má nálgast hér.

Frá árinu 2019 hefur Vatnajökulsþjóðgarður tekið saman sjálfbærniuppgjör fyrir starfsemi þjóðgarðsins, skipt niður á rekstarsvæði. Uppgjörið byggir á þeim upplýsingum sem hugbúnaðarfyrirtækið Klappir hefur safnað ásamt öðrum gögnum frá þjóðgarðinum. Frá árinu 2018 hefur Vatnajökulsþjóðgarður einnig skilað inn Grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda var 5% lægri árið 2023 samanborðið við losun ársins 2022, fór úr 152,8 tCO2í, í 145,2 tCO2í. Þar munar helst um aukna notkun rafmagnsbíla en enn eru tækifæri til minni losunar og miða allar aðgerðir í aðgerðaráætlun að því. T.d. eru tækifæri í að skipta út farartækjum knúnum jarðefnaeldsneyti fyrir rafmagnsbíla, sem og að nýta betur flugferðir og auka flokkun á úrgangi á fjölmennustu tjaldsvæðunum. Vatnajökulsþjóðgarður var kolefnishlutlausstofnun fyrir árin 2021, 2022 og 2023 með kaupum á staðfestum kolefniseiningum frá kolefnisjöfnunarvettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Vonir eru bundnar við að uppfærð aðgerðaráætlun, með tímasettum og skilgreindum aðgerðum til að draga úr losun GHL, muni skila sér til að ná settum markmiðum sem eru í samræmi við markmið stjórnvalda í málaflokknum.

Sjálfbærniuppgjör Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir árið 2023 má nálgast hér.