Hafragilsundirlendi
Í og við Hafragilsundirlendi eru erfiðustu en jafnframt stórkostlegustu gönguleiðir Jökulságljúfra og þar þarf að fara með gát. Gengið er um brattar skriður og einstigi sem hentar ekki lofthræddum. Óvíða kallast á meiri andstæður en á þessum stað, þar sem blátt bergvatn blandast gruggugu jökulfljótinu
Hringleið ofan í undirlendið er upplagt að hefja við bílastæðið við Dettifoss. Gengið er síðan í austur að Dettifossi og þaðan norður að Sanddal þar sem farið er ofan í undirlendið. Þar er er kaðall sem gott er að styðja sig við til að fara niður dálítið klettahaft. Þar neðan við er gengið niður bratta og grýtta brekku ofan í undirlendið. Í undirlendinu er gengið fram hjá Hafragilsfossi og fyrir svokallaðan Fossvog, sem liggur inn undir þverhnípt bjargið. Þarna þarf að fara um mjög stórgrýtta urð og einstigi sem er ekki fyrir lofthrædda. Leiðin upp úr Hafragilsundirlendi að norðan liggur inn í Hafragilið og þaðan eftir gömlum kindagötum upp með hlíðinni. Þegar upp á brún er komið er barmi Hafragils að vestan fylgt í suður, þar til komið er aftur að bílastæðinu.
Tengdar gönguleiðir
Dettifoss
Dettifoss er kraftmesti foss Evrópu. Ógnarkraftinn má finna með því að leggja lófa við klappir nálægt fossinum og finna hvernig bjargið titrar. Hægt og bítandi grefur hann sig í gegnum fossbrúnina og færir þannig sjálfan sig sífellt sunnar eða um hálfan meter á ári.
Frá bílastæðinu að útsýnisstað við Dettifoss er um 1 km ganga (aðra leið). Þaðan er hægt að ganga sömu leið tilbaka á bílastæðið.
Dettifoss og Selfoss
Andstæður eru eitt aðaleinkenni landlagsins í Jökulsárgljúfrum. Á þessari gönguleið kemur þetta skýrt fram í kraftmesta fossi Evrópu, Dettifoss, andspænis fagurmótuðum og hógværum Selfossi. Gengið er að Dettfossi en í stað þess að fara sömu leið til baka eins og í leið D-1 er hér gengið í suður, meðfram árbakkanum, að Selfossi og síðan farin vestari leiðina tilbaka að bílastæðinu.
Ásbyrgi - Dettifoss
Milli Ásbyrgis og Dettifoss liggur um 32 km gönguleið eftir Jökulsárgljúfrum. Fjölbreytileiki landslagsins er einstakur og andstæður í umhverfinu fanga augað við hvert fótspor: hrikaleg gljúfur, kyrrlátar tjarnir, tærar lindir, úfin jökulsá, gróskumikill skógur og grýttur melur.
Það þarf að ætla sér tvo daga í gönguna og þá er miðað við náttstað í Vesturdal. Einungis er leyft að tjalda á tjaldsvæði í Vesturdal og við Dettifoss.