
Sandfell
Sandfell er eyðibýli í Öræfum, áður kirkjustaður og prestssetur til 1931. Bærinn er landnámsjörð; þar bjó að því er segir í Landnámabók Þorgerður, ekkja Ásbjarnar Heyangurs-Bjarnarsonar, sem lést í hafi á leið til Íslands. Þorgerður nam þá sjálf land og bjó á Sandfelli ásamt sonum sínum. Sandfell fór í eyði árið 1947.
Mynd: Danskir landmælingamenn í túninu við Sandfell í Öræfum árið 1902
Frá Sandfelli er ein af aðalgönguleiðum á Hvannadalshnjúk. Vert er að taka fram að gönguleiðin á Hvannadalshnjúk er löng og krefjandi ganga, að stórum hluta á jökli. Öruggast er að fara upp á jökulinn með reyndum fjallaleiðsögumönnum.