Beint í efni
S6

Svartifoss - Sjónarnípa

Helstu kostir þessarar leiðar eru glæsilegt útsýni til Kristínartinda, Hrútfjallstinda og Öræfajökuls og eftir því sem nær dregur opnast Skaftafellsjökull fyrir göngufólki. Viðkoma við stuðlabergsprýddan Svartafoss setur svo punktinn yfir i-ið. Á vorin og snemmsumars er ríkulegt fuglalíf á leiðinni sem vert er að njóta á sama tíma og tekið er tillit til hreiðurgerðar og uppeldisstarfa.

Vegalengd
7,1 km
Áætlaður tími
2,5-3 klst
Erfiðleikastig
Krefjandi
Hækkun
310 m
Tegund
Hringleið
Upphaf gönguleiðar
Fyrir utan Skaftafellsstofu

Frá Skaftafellsstofu er gengið meðfram tjaldsvæði og beygt upp í hæðina við gatnamót undir Austurbrekkum. Þaðan er gengið skáhallt áfram upp Austurbrekkur þar til komið er að Sjónarnípu. Hækkun er tiltölulega jöfn á þessari leið.

Tilvalið er að ganga til baka um Austurheiði og má þá jafnvel hafa viðkomu við Svartafoss. Eins má sérstaklega mæla með því að ganga þann hring réttsælis, þ.e. í stað þess að fara stystu leið að Sjónarnípu er gengið langleiðina að Svartafossi og síðan um Austurheiði að Sjónarnípu. Helstu kostir þessarar leiðar eru glæsilegt útsýni til Kristínartinda, Hrútfjallstinda og Öræfajökuls og eftir því sem nær dregur opnast Skaftafellsjökull fyrir göngumanni. Til baka er gengið um Austurbrekkur að tjaldsvæði. Heildarlengd þessa hrings er 6,9 km.

Tengdar gönguleiðir

S2

Svartifoss - Sjónarsker - Sel

5,8 km hringleið
2 klst
Auðveld

Svartifoss með sína formfögru stuðla er ein af náttúruperlum Skaftafells en leiðin gegnum skógarkjarrið býður ekki síður upp á einstaka upplifun á hvaða árstíma sem er. Á leiðinni má virða fyrir sér Hundafoss og Magnúsarfoss, frá Sjónarskeri er ústýni vítt til allra átta í góðu skyggni og gamli torfbærinn í Seli færir göngufólk til fyrri tíma búsetu í Skaftafelli.

S3

Skaftafellsheiði

16,6 km hringleið
5-6 klst
Krefjandi

Ganga um Skaftafellsheiðina býður upp á krefjandi en áhugaverða göngu um fjölbreytt landslag; gróskumikinn birkiskóg, mela og fjallaskriður með skriðjöklana Morsárjökul og Skaftafellsjökul sitthvoru megin heiðarinnar og flatan Skeiðarársand í suðri.

S5

Sjónarnípa

6,5 km hringleið
2-2,5 klst
Krefjandi

Helstu kostir þessarar leiðar eru glæsilegt útsýni til Kristínartinda, Hrútfjallstinda og Öræfajökuls og eftir því sem nær dregur opnast Skaftafellsjökull fyrir göngufólki. Á vorin og snemmsumars má einnig eiga von á ríkulegu fuglalífi.

Kortabæklingur og kort