Beint í efni

Ársskýrsla 2023

Komdu og upplifðu Vatnajökulsþjóðgarð

Ingibjörg Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs

Ávarp framkvæmdastjóra

Kraftur og gleði einkenndi starfið í Vatnajökulsþjóðgarði árið 2023. Árið var ár hátíðarhalda og stórviðburða, mannamóta, gjöfuls samstarfs og fjölbreyttrar fræðslu og miðlunar, auk hefðbundinna verkefna í landvörslu og móttöku gesta. Komdu og upplifðu Vatnajökulsþjóðgarð eru inngangsorð nýrrar og glæsilegrar vefsíðu þjóðgarðsins sem tekin var í notkun um mitt árið. Þau orð kjarna ágætlega leiðarljós þjóðgarðsins í hinu daglega starfi.

Tvær nýjar gestastofur voru opnaðar árið 2023, önnur á Kirkjubæjarklaustri í glæsilegri nýbyggingu vestan Skaftár, og hin á bökkum Mývatns á Skútustöðum í samstarfi við Umhverfisstofnun. Gestastofurnar eru þá orðnar fimm á meginstarfsstöðvum þjóðgarðsins og við hafa bæst tveir nýir og spennandi áfangastaðir fyrir gesti sem vilja njóta fallegs útsýnis og fræðast um náttúru og sögu næsta nágrennis.

Sýningin „Hvað býr í þjóðgarði“ var opnuð í Perlunni um mitt ár í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands. Samhliða stóðu Náttúruminjasafn Íslands og Vatnajökulsþjóðgarður fyrir ýmsum sameiginlegum viðburðum og verkefnum. Samstarfsverkefnið „Eldur, ís og mjúkur mosi“, fékk styrk úr Barnamenningarsjóði, en þar voru leiddir saman listamenn og nemendur grunnskóla úr nágrenni þjóðgarðsins, auk eins skóla af höfuðborgarsvæðinu.

Mikill fögnuður ríkti um miðjan júní þegar boðað var til hátíðar í botni Ásbyrgis í tilefni af 15 ára afmæli þjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum. Hátíðin var í anda gömlu Ásbyrgishátíðanna, þar sem farið var í leiki og boðið upp á tónlistaratriði og ræðuhöld. Íbúar og velunnarar létu sig ekki vanta og gleðin skildi eftir sig hlýju í hjarta starfsfólks langt fram eftir árinu.

Þjóðgarðurinn stóð fyrir eða tók þátt í fjölda annarra viðburða. Haldin var ráðstefna norrænna UNESCO heimsminjastaða á Kirkjubæjarklaustri sem bar yfirskriftina „Samfélag og samvinna – í sátt við náttúruna“. Þá tók þjóðgarðurinn meðal annars þátt í afmælisráðstefnum Samtaka ferðaþjónustunnar og Ferðaklúbbsins 4x4, Mannamóti markaðsstofa landshlutanna og málþingi Ferðamálastofu og Félags íslenskra fjallaleiðsögumanna um öryggi ferðafólks. Samstarf sem þetta er þjóðgarðinum afar verðmætt og styður vel við markmið þjóðgarðsins.

Sú orka og lífsfylling sem fylgir því að dvelja og starfa í íslenskri náttúru skilar sér án efa í þeim krafti og gleði sem einkenndi starfið í þjóðgarðinum á árinu. Starfsfólk þjóðgarðsins þakkar gestum, samstarfsaðilum, íbúum og öðrum ánægjulegt samstarf og gleðistundir á árinu og hlakkar til áframhaldandi samveru í framtíðinni.

Þorsteinn Roy

Frá afmælishátíð í Jökulsárgljúfrum

Norðursvæði

Gljúfrastofa og Jökulsárgljúfur

Árið 2023 var minnisstætt fyrir margra hluta sakir og mun seint líða úr minni þeirra sem störfuðu í Jökulsárgljúfrum. Líkt og áður fetuðu árstíðirnar í fótspor hver annarrar, veturinn beitti sínum harkalegu kuldaklóm og vindurinn blés af krafti en þó var fremur snjólétt á svæðinu. Það kom þó ekki í veg fyrir að vegir lokuðust. Hnjúkaþeyrinn mætti til leiks með látum á vordögum en það leiddi af sér að loka þurfti tímabundið bæði vegi og gönguleiðum við Dettifoss vegna leysinga. Sumarið kom í kjölfarið með sinni hógværu meðalsumarblíðu. Samið var við Google Maps um breytingar á leiðbeiningum að Dettifossi til vesturs. Ferðafólk brást strax við með þeim afleiðingum að bílastæði vestan ár fylltist og ringulreið myndaðist í kjölfarið þar sem rútur gátu ekki lengur lagt í bílastæðin. Haustið var milt og litadýrðin gladdi hvern þann sem gaf sér tíma til að staldra við.

Haldið var upp á 50 ára afmæli þjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum þann 18. júní og tókst það með miklum ágætum.

Herðubreið (Elías Arnar Nínuson)

Norðursvæði - hálendi

Gígur gestastofa, Herðubreiðarlindir, Askja og austurafrétt Bárðdæla

Árið 2023 hélt starfsemin á hálendi norðursvæðis áfram að vaxa og var þar rekstur Gígs og gestastofunnar stærsta viðbótin. Sérfræðingur var ráðin til starfa og hóf störf í september. Stöðugildum landvarða fjölgaði vegna gestastofunnar og var einnig ráðinn inn landvörður yfir vetrartímann og eru því heilsársstörf orðin fjögur. Austurafrétt Bárðdæla var áfram sinnt frá Skútustöðum sem og af svokallaðri flakkaravakt. Eftir snjóléttan vetur opnaði hálendið mun fyrr en vanalega og hófst því viðvera landvarða í Dreka 6. júní og vegurinn að Vikraborgum opnaði 15. júní. Aðrir hálendisvegir voru allir orðnir færir í lok júní. Eftir einstaklega hlýjan júní tók að snjóa í byrjun júlí og var veðurfar eftir því út sumarið, upp og ofan. Gestafjöldi á svæðinu drógst örlítið saman frá því árinu áður og þá sérstaklega í skipulögðum ferðum hjá ferðaþjónustuaðilum, hugsanlega hafði óvissustigið áhrif á það. Landverðir voru í Dreka út september og tóku þá önnur hefðbundin störf við svo sem áframhaldandi vinna við stjórnunar- og verndaráætlun sem og utanumhald um uppbyggingu Gígs.

Í Skaftafellsheiði (Þorsteinn Roy)

Suðursvæði

Skaftafellsstofa og Skaftafell

Skaftafell heldur áfram að trekkja að gesti í þjóðgarðinn en gekk starfsemin vel yfir árið. Veður var með besta móti og lék við gesti. Veðurviðvaranir voru fáar framan af vetri og haustveður fremur róleg. Veðurstofa Íslands setti upp upp splunkunýjan sjálfvirkan veðurmæli í Skaftafelli á nýjum stað til að betur þjónusta svæðið.

Aðsókn hefur aukist til muna á tjaldsvæðinu á jaðartímum að vori og hausti en helst jafnara yfri sumarmánuðina. Aldrei hafa fleiri gengið að Svartafossi og í ágústmánuði þegar 31.909 gestir lögðu leið sína þangað. Starfsfólk þjóðgarðis fann áþreifanlega fyrir þessari breytingu á gestafjölda á svæðinu.

Í íshelli á Breðamerkurjökli (Guðrún Stefanía Vopnfjörð Ingólfsdóttir)

Suðursvæði

Gamlabúð og Breiðamerkursandur

Eftir að gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs í Gömlubúð lokaði í árslok 2022, er ekki lengur rekin gestastofa á svæðinu. Við Jökulsárlón er þó ekkert lát á fjölgun ferðamanna, en umferð ferðamanna um Jökulsárlón jókst um 14,6% á milli ára. Aldrei hafa fleiri gestir komið á svæðið á einu ári, en um 968 þúsund gestir heimsóttu svæðið á árinu. Fjölgunin er mest utan hins hefðbundna háannatíma, en met voru sett í gestakomum í apríl, maí, júní, október og nóvember.

Snæfell (Canva)

Austursvæði

Snæfellsstofa, Snæfell og Krepputunga

Veðurfarslega byrjaði sumarið vel og allt benti til þess að vegir myndu opna snemma. Þrátt fyrir þurra vegi og gott tíðarfar þá hafðist ekki að gera við þær skemmdir sem höfðu orðið á hálendisvegum svæðisins fyrr en á þeim tíma sem telst til hefðbundins opnunartíma. Eftir þessa góðu byrjun versnaði tíðin heldur svo segja má að sumarið hafi verið helst til stutt á austurhálendinu þetta árið, sem hafði eflaust einhver áhrif á gestakomur.

Nokkrar hreyfingar voru á mannauði austursvæðis á árinu. Þjóðgarðsvörður fór í leyfi á haustmánuðum og tók aðstoðarþjóðgarðsvörður við hans hlutverki og yfirlandvörður við hlutverki aðstoðarþjóðgarðsvarðar. Þá var landvörður einnig starfandi út árið. Sumarstarfsfólkið, sem langflest hafði starfað áður á svæðinu, stóð að vanda vaktina með prýði og lagði sig fram um að taka vel á móti öllum gestum þjóðgarðsins.

Á leið um vestursvæði (Auður Lilja Arnþórsdóttir)

Vestursvæði

Skaftárstofa, Nýidalur, Hrauneyjar, Tungnaáröræfi, Eldgjá, Langisjór og Lakagígar

Skemmtilegt ár er að baki á vestursvæði. Hálendið opnaði frekar snemma og kom vel undan vetri. Landverðir flykktust til fjalla í kringum miðjan júní og gestirnir létu ekki á sér standa. Heildarfjöldi gesta jókst á milli ára á öllum hálendisstöðvum okkar. Annað árið í röð fengum við heimsókn þýskra sjálfboðaliða, framhaldsskólanema og kennara þeirra sem vildu láta gott af sér leiða í þágu náttúrunnar. Þessi vaski hópur dvaldi í fimm daga á Skaftártunguafrétti og aðra fimm í Nýjadal við viðhald gönguleiða, rakstur á utanvegarförum og ýmis önnur mannaflafrek verkefni. Stærstu verkefni ársins voru að þessu sinni á Kirkjubæjarklaustri þar sem ný og glæsileg gestastofa var tekin í gagnið á haustmánuðum.

Ársskýrslur Vatnajökulsþjóðgarðs

Skoðaðu aðrar ársskýrslur Vatnajökulsþjóðgarðs hér