Náttúru- og minjavernd
Náttúra og menningarsaga Vatnajökulsþjóðgarðs er einstæð á heimsvísu. Náttúran mótast af mikilli eldvirkni á Mið-Atlantshafshrygg og loftslagi á mörkum hlýrra og kaldra strauma í hafi og lofti. Ísland varð til við eldsumbrot og á það settist Vatnajökull, mesta jökulbreiða Evrópu.
Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var lögð áhersla á að Vatnajökull væri kjarninn og áhrifasvæði hans væru vernduð sem ein heild. Aðdragandi og undirbúningur að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs tók um 9 ár. Hann hófst vorið 1999 þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu þar sem umhverfisráðherra var falið að kanna möguleikann á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. 7. júní árið 2008 var Vatnajökulsþjóðgarður svo formlega stofnaður.
Hvað er þjóðgarður?
Þjóðgarðar eru oftast stór svæði sem eru að mestu upprunalega eða lítt snortin og hafa sérstaka náttúru, lífriki, landslag, jarð- eða menningarminjar. Með því að gera svæðið að þjóðgarði er ákveðið að vernda svæðið til framtíðar og taka tillit til náttúrur og menningarminja við allar framkvæmdir, skipulag og athafnir. Þjóðgarðar eru eign þjóðarinnar og þar á útivist, fræðsla og upplifun sér stað. En til að vernda lífríki, upplifun, jarð- og menningarminjar þarf ákveðna innviði, skipulag og stundum er aðgengi því takmarkað á afmörkuðum svæðum.
Saga þjóðgarða
Þjóðgarða má finna um allan heim en hugmyndin um þjóðgarða kemur fyrst frá Bandaríkjunum og þar var stofnaður fyrsti þjóðgarðurinn í Yellowstone árið 1872. Svæðið inniheldur kunnuleg fyrirbæri fyrir íslendinga en þar er að finna jarðhitasvæði með litríkum hverum, goshverum og laugum. Einnig er mikið dýralíf á svæðinu og þar má finna úlfa, skógarbirni og buffalóa. Garðurinn er gríðastór og er tæpir 9.000 km2 en til viðmiðunar þá var Vatnajökull 7700 km2 árið 2017.
Fyrsti þjóðgarðurinn, sem stofnaður var samkvæmt lögum um náttúruvernd, var þjóðgarðurinn í Skaftafelli árið 1967. Þjóðgarður var stofnaður í Jökulsárgljúfrum árið 1973 og við Snæfellsjökul árið 2001. Þingvellir við Öxará og grenndin var friðlýst sem helgistaður Íslendinga og sem þjóðgarður með lögum nr. 47/2004 en þau leystu af hólmi eldri lög um Þingvelli frá árinu 1928. Þingvellir voru valdir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) árið 2001 og Vatnajökulsþjóðgarður árið 2019. Lög um þjóðgarða og aðrar gerðir af friðlýstum svæðum er að finna í náttúruverndarlögum en einnig eru þjóðgarðar með sér skilmála eftir aðstæðum. Til að vernda svæðin sem best til framtíðar og taka tillit til aðstæðna og samfélags í kring.
Þjóðgarðar á Íslandi eru þrír, fyrst kom þjóðgarðurinn á Þingvöllum, árið 2001 varð til þjóðgarðurinn Snæfellsjökull en árið 1967 og 1973 voru stofnaðir þjóðgarðar í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum sem seinna urðu hluti af Vatnajökulsþjóðgarði árið 2008. Lög um þjóðgarða og aðrar gerðir af friðlýstum svæðum er að finna í náttúruverndarlögum en einnig eru þjóðgarðar með sér skilmála eftir aðstæðum. Til að vernda svæðin sem best til framtíðar og taka tillit til aðstæðna og samfélags í kring.
Hver eru markmið Vatnajökulsþjóðgarðs?
1. Vernda náttúru svæðisins, svo sem landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar.
2. Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins.
3. Stuðla að rannsóknum á svæðinu, fræða um það og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins.
4. Leitast við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins, m.a. með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar gæða svæðisins.
Hvernig virkar Vatnajökulsþjóðgarður?
Stjórnunar- og verndaráætlun er eitt meginstjórntæki þjóðgarðsins og verkfæri til stefnumótunar. Í áætluninni er sett fram stefna um Vatnajökulsþjóðgarð, náttúruvernd, útivist og byggðaþróun. Stefnan var mótuð í samráði við fjölmarga hagsmunaaðila. Hún snertir á ótal atriðum sem snúa að verndun og nýtingu gæða þjóðgarðsins. Einnig gerir stefnan því skil hvernig nýta megi sem best tækifærin sem verða til vegna stofnunar þjóðgarðsins, styrkja það sem fyrir er en jafnframt skapa ný. Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs ákvað, í samráði við umhverfisráðuneytið, að láta heiti áætlunarinnar endurspegla þessa víðu skírskotun hennar og kalla hana Stjórnunar- og verndaráætlun í stað verndaráætlunar eins og lögin gera ráð fyrir.