Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Stjórnunar- og verndaráætlun

Stjórnunar- og verndaráætlun er aðalstjórntæki þjóðgarðsins. Núgildandi útgáfa (3. útgáfa) áætlunarinnar tók gildi 5. júlí 2022.

Stjórnunar- og verndunaráætlun

Fyrsta útgáfa stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs var samþykkt árið 2011 og endurbætt í 2. útgáfu 2013. Í tengslum við ný svæði innan þjóðgarðs hafa verið unnir viðaukar vegna Krepputungu og Breiðamerkursands. Í ljósi þróunar í ferðamennsku, náttúruvernd og stjórnsýslu voru afmarkaðir þættir áætlunarinnar teknir til endurskoðunar 2021, áðurnefndir viðaukar prjónaðir við og ákvæði um veiðar á austursvæði tekin til endurskoðunar. Þar með varð til 3. útgáfa stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs sem tók gildi 5. júlí 2022.

Lög um Vatnajökulsþjóðgarð kveða á um að sett skuli verndaráætlun þar sem gerð sé grein fyrir helstu þáttum verndar og landnýtingar innan þjóðgarðsins. Vegna þess hve veigamikið hlutverk áætlunarinnar er í að stýra álagi og landnotkun innan þjóðgarðsins hlaut skjalið nafnið stjórnunar- og verndaráætlun. Það byggir í grunninn á tillögum frá svæðisráðum þjóðgarðsins og stefnumótun svæðisráða og stjórnar í samráði við fjölda hagsmunaaðila. Stjórnunar- og verndaráætlun vegur þungt í ákvarðanatöku en samkvæmt lögum um þjóðgarðinn eru sveitarstjórnir bundnar af efni hennar við gerð skipulagsáætlana fyrir landsvæði innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Stjórnunar- og verndaráætlun gengur þannig framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga, en forsenda þess er aðkoma sveitarfélaganna að svæðisráðum.

Stjórnunar- og verndaráætlun er meginstjórntæki þjóðgarðsins og verkfæri til stefnumótunar. Henni er samkvæmt því ætlað að vera stefnumótandi áætlun sem stjórnendur Vatnajökulsþjóðgarðs styðjast við þegar ákvarðanir um stjórnun og skipulag þjóðgarðsins eru teknar.

Í áætluninni er sett fram markmið verndunar, stefnu stjórnar og leiðir til að framfylgja ákvæðum þar um. Áætlunin byggir í grunninn á markmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs er varða verndun, aðgengi, fræðslu- og rannsóknir og blómlegt atvinnulíf og byggð. Ákvæði stjórnunar- og verndaráætlunar taka t.d. til einstakra svæða, verndaraðgerða, landnýtingar, mannvirkjagerðar, samgangna og umferðarréttar og aðgengis að svæðum. Einnig gerir stefnan því skil hvernig nýta megi tækifærin sem verða til vegna stofnunar þjóðgarðsins, styrkja þau sem fyrir eru en jafnframt skapa ný. Til að heiti áætlunarinnar endurspegli þessa víðu skírskotun hennar, er hún kölluð stjórnunar- og verndaráætlun í stað verndaráætlunar eins og lögin gerðu upphaflega ráð fyrir.

Stjórnunar- og verndaráætlun er unnin á grundvelli tillagna frá svæðisráðum þjóðgarðsins. Áætluninni er ætlað að endurspegla sameiginlegar væntingar og áform þeirra sem koma að fjölbreyttri starfsemi, útivist eða eiga aðra hagsmuni á starfssvæði þjóðgarðsins. Markmið áætlunarinnar eru sett fram með það í huga að stjórnendur þjóðgarðsins og aðrir opinberir aðilar nái sem best að uppfylla skyldur sínar en geti jafnframt með aðgerðum sínum, stjórnun og verklagi stutt aðra aðila við að ná markmiðum sínum til hagsbóta fyrir starfsemi í þjóðgarðinum og á nærliggjandi svæðum.

Komi til stækkunar þjóðgarðsins, eru gerðir viðaukar við stjórnunar- og verndaráætlun fyrir ný svæði. Í lögum er gert ráð fyrir að stjórnunar- og verndaráætlun verði endurskoðuð eigi sjaldnar en á 10 ára fresti.

Áætlanir í vinnslu

Sem stendur eru í vinnslu viðaukar vegna Herðubreiðar og þess hluta Ódáðahrauns sem bættist við þjóðgarðinn 2019. Ennfremur stendur yfir vinna við viðauka vegna þeirra svæða sem bættust við þjóðgarðinn 2021, þ.e. Austurafrétt Bárðdæla, Sandfell í Öræfum og Hoffellslambatungur. Nánar um þau verkefni neðar á síðunni.

Auk áðurnefndra viðbóta liggur fyrir að taka stjórnunar- og verndaráætlun til endurskoðunar í heild sinni. Til þess verks þarf að vanda með gagngerri rýni grunnforsendna líkt og verndargildis og svæðaskiptingar (e. zoning), svo og skipulagi innviða með tilliti til ólíkra hagsmunahópa. Forsenda þeirrar vinnu er víðtækt samráð við hlutaðeigandi fagstofnanir og hagsmunaaðila. Í allri vinnu við stjórnunar- og verndaráætlanir, miðar Vatnajökulsþjóðgarður að gagnsæi og góðri upplýsingagjöf.