Vonarskarð: Framtíðarskipulag náttúruverndar og innviða
Hjá Vatnajökulsþjóðgarði stendur fyrir dyrum vinna við framtíðarskipulag náttúruverndar og innviða innan landslagsheildarinnar í Vonarskarði, í tengslum við endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar þjóðgarðsins.
Kort af svæðinu
Hér má nálgast kort af svæðinu við Tungafellsjökul og Vonarskarð. Einnig má sjá kort í fylgigögnum 105a og 105b.
Ákvörðun stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs 18. nóvember 2024 og forsaga máls
Á 205. fundi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs þann 18. nóvember 2024 var samþykkt með meirihluta atkvæða að hefja ferli breytinga á stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins með það fyrir augum að opnað verði fyrir vélknúna umferð um Vonarskarð til 5 ára í tilraunaskyni, í samræmi við tillögu c. í minnisblaði frá stjórnarformanni Vatnajökulsþjóðgarðs frá september 2020 fsk. 69.
Hér fyrir neðan má nálgast samantekt um gögn málsins og efnisatriði þeirra vegna ákvörðunar stjórnar um hvort hefja ætti ferli breytingar á stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs varðandi umferð í Vonarskarði. Einnig fylgir minnisblað þar sem ítarlega er farið yfir ferli málsins, frá staðfestingu þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra á 2. útgáfu stjórnunar- og verndaráætlunar árið 2013, þar sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fékk samhliða staðfestingu tilmæli um frekari skoðun á málefnum útivistar og náttúrverndar í Vonarskarði. Frá þeim tíma hefur málefnið verið til umfjöllunar hjá svæðisráðum og stjórn, eins og ítarlega er rakið í minnisblaðinu.
Öll gögn málsins má nálgast hér neðar á síðunni, tölusett frá 1-108.