Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Orðabanki & heimildir

Afkoma: Afkoma jökuls er mismunur ákomu og leysingar og er ákvörðuð með mælingu að vori og hausti. Hún er jákvæð ef meira safnast á jökulinn af snjó en hann tapar við leysingu á snjó og ís.

Afrennsli: bræðsluvatn jökuls sem myndar jökulárnar, er breytilegt eftir árstíma.

Ákoma: Uppsafnaður snjór, bræðsluvatn og krapi sem frýs, þ.m.t. skafrenningur og snjóflóð.

Ákomusvæði/Safnsvæði: Svæðið ofan jafnvægislínu þar sem ákoma er meiri en leysing yfir árið og ummyndun snævar í ís á sér stað.

Botnlón: Stöðuvatn sem myndast á jökulbotni t.d. vegna jarðhita eða eldvirkni.

Endagarður: Jökulgarður framan við jökulsporð sem sýnir mestu útbreiðslu hans í kjölfar framgangsskeiðs.

Framhlaupsjökull: Framhlaupsjöklar sýna tímabundna aukningu eða óreglu í skriðhraða (hraði á bilinu 30–300 m/dag hefur mælst), sumir hverjir hlaupa fram með reglulegu millibili á nokkurra ára eða áratuga fresti.

Gaddjökull: Jökull sem er frosinn í gegn árið um kring. Slíkir jöklar eru á köldustu svæðum jarðar. Þar er óveruleg bráðnun og jöklarnir rýrna aðeins við þurrgufun og kelfingu í sjó.

Gróðurhúsalofttegundir: Lofttegundir sem gleypa í sig varmageislun og hækka hita í lofthjúpnum ef magn þeirra eykst. Helstu gróðurhúsalofttegundir eru koltvísýringur, metan, nituroxíð og vatnsgufa.

Hitaþensla sjávar: Þegar sjórinn hlýnar þenst hann út og þar með hækkar yfirborð sjávar.

Hörfun: Stytting jökulsporðs. Jökulísinn skríður ávallt fram við sporðinn en við hörfun er bráðnun og eða kelfing meiri en tilflutningur íss af völdum skriðs.

Jaðar-póljökull: Jöklar sem eru fyrir neðan frostmark en með þiðinn kjarna. Þá er að finna fjær heimskautunum en gaddjökla þar sem lofthiti fer yfir frostmark.

Jaðarurð: Jökulgarður sem hleðst upp við jaðar jökulsins neðan jafnvægislínu, þar sem jökullinn flytur fram efni. Jaðarurð er samsett úr efni sem jökulinn ber með sér frekar en efni sem leysingarvatn skilur eftir sig, og hún stendur eftir í fjallshlíðinni þegar jökullinn lækkar.

Jafnvægislína: Jafnvægislína skilur að ákomu- og leysingarsvæði og þar er því leysing jöfn ákomu. Hæð jafnvægislínu er metin í lok leysingartímabils að hausti og á þíðjöklum er hún iðulega í sömu hæð og snælínan. Hæð jafnvægislínu er háð hita, úrkomu og landslagi.

Jökulhlaup: Snögg vatnsflóð frá lónum við jökuljaðar eða jökulbotn sem bræðsluvatn og regn hefur safnast í, eða vegna jarðhita eða eldgoss undir jökli.

Jökulgarður: Samhræringur af ólagskiptri urð sem jökull hefur mulið, flutt og sett af sér. Mismunandi gerðir jökulgarða eru til, jaðarurðir, miðurðir, endagarðar o.fl.

Jökulís: Samanþjappaður massi af ískristöllum með eðlismassa á bilinu 830–910 kg/m3.

Jökulker: Dæld sem myndast þegar ísjakar eða dauðís grafast í set. Þegar ísinn bráðnar myndast ker sem oft er fullt af vatni.

Jökull: Massi af snjó og ís sem nær ekki að bráðna yfir sumartímann allmörg ár í röð og skríður fram undan eigin þunga.

Jökulsandur: Aurar framan við jökul sem jökulár hafa hlaðið upp með framburði sínum.

Jökulsporður: Lægsti og fremsti hluti jökulsins.

Jökulstíflað lón: Lón sem myndast þegar jökull skríður fyrir dalsmynni eða tveir jöklar mætast.

Jökulsker: Fjallstoppur eða hryggur sem stendur upp úr yfirborði jökulsins.

Kelfing: Jökull kelfir þegar jökulsporðurinn gengur út í lón eða sjó, jökultungan flýtur upp og ísjakar brotna framan af henni.

Koltvíoxíð: CO2 er ein helsta gróðurhúsalofttegundin.

Landris: Vegna bráðnunar jökla minnkar fargið á jarðskorpuna og landið rís. Mælingar sýna að landris er um 12 mm/ári við Höfn í Hornafirði, en 30–40 mm/ári undir miðjum og vestanverðum Vatnajökli.

Leysing: Rýrnun jökulsins við bráðnun á snjó og ís, uppgufun, þurrgufun eða kelfingu.

Leysingarsvæði: Svæði neðan jafnvægislínu jökuls þar sem bráðnun (leysing) er meiri en snjósöfnun (ákoma). Á leysingarsvæðinu eru gjarnan litlar tjarnir, vatnsrásir niður í gegnum ísinn og vatnsgöng við jökulbotninn.

Litla ísöld: Kalt tímabil á norðurhveli sem spannaði um 5 aldir (ca. 1450–1900 á Íslandi). Á litlu ísöld gengu jöklar fram víða um heim. Flestir þeirra náðu hámarki á tímabilinu 1700–1850 en aðeins seinna á norðurskautssvæðinu eða um og skömmu fyrir 1900.

Loftslag: Loftslag er meðalveður yfir langan tíma og breytist hægt. Mæla þarf veðrið í marga áratugi til þess að geta sagt til um loftslagsbreytingar.

Loftslagsbreytingar (af mannavöldum): Losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum veldur loftslagsbreytingum. Aukning þessara lofttegunda er aðallega vegna bruna á kolum og olíu til raforkuframleiðslu, í samgöngum og iðnaði, losunar metans í landbúnaði og minni bindingar CO2 vegna skóg- og jarðvegseyðingar. Afleiðingar þessara breytinga á jörðinni eru meðal annars bráðnun jökla, hækkun sjávarborðs, röskun vistkerfa og öfgar í veðurfari.

Miðurð: Urðarrani eða hryggur sem myndast þegar tvær jaðarurðir mætast þar sem tveir skriðjöklar renna saman.

Nútími: Ísöld skiptist í hlýskeið og kuldaskeið. Hlýskeiðið sem við lifum á núna hófst fyrir um 10.000 árum síðan.

Rofmörk: Skýr mörk í fjallshlíð sem sýna mestu þykkt jökulsins. Þau geta birst sem litarmunur í bergi (mismunur á veðruðu bergi og óveðruðu) eða sem skýr skil á milli gróðurs ofan og neðan rofmarka. Jaðarurðir eru víða skýrustu ummerki um fyrri legu jökulyfirborðs.

Sporðlón: Lón sem myndast við jökulsporð yfirleitt í kjölfar hörfunar og stækkar við áframhaldandi hörfun. Vatnið safnast í dældir sem jökullinn grefur. Stundum eru slík vötn stífluð af endagörðum.

Veður: Veðrið breytist stöðugt og aðeins er hægt að spá fyrir um það nokkra daga fram í tímann.

Þíðjökull: Jökull sem er við bræðslumark frá yfirborði niður á botn nema þunnt lag nærri yfirborði sem getur verið frosið að vetri.

Þynning jökuls: Þegar þykkt jökuls minnkar vegna bráðnunar eða hreyfingar íssins, hvort heldur á jökli sem er á hreyfingu eða dauðís sem hreyfist ekki undan eigin þunga.

Heimildir

Fyrir Hörfandi jökla

Hörfandi jöklar

Markmið verkefnisins, sem er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, er að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla á Íslandi sem og annars staðar á jörðinni.