Hörfandi jöklar
Einn tíundi hluti Íslands er hulinn jöklum. Vegna hlýnunar loftslagsins hopa þeir hratt og sumir hafa horfið á síðasta áratug. Þessi fræðsluvefur er hluti af verkefninu Hörfandi jöklar og hér finnur þú upplýsingar um rannsóknir, fræðin og afleiðingar hörfandi jökla.


Hörfandi jöklar
Verkefnið er samvinnuverkefni Vatnajökulsþjóðgarðs og Veðurstofu Íslands, fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og unnið í samvinnu við Náttúrustofu Suðausturlands og Jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskólans.
Markmið verkefnisins, sem er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, er að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla á Íslandi sem og annars staðar á jörðinni.
Fréttabréf Hörfandi jökla
Árlega er gefið út yfirlit um íslenska jökla sem hafa hopað hratt í um aldarfjórðung og er rýrnun þeirra einhver skýrasti vitnisburður hérlendis um hlýnandi loftslag. Í fréttabréfunum er gerð stutt grein fyrir breytingum á jöklunum síðan um aldamótin 1900 og lýst niðurstöðum mælinga á stöðu jökulsporða, afkomu jökla og landlyftingu á síðustu árum. Birt eru uppfærð kort af legu jökulsporða og uppfærðar teikningar af afkomu jökla með mælingum ársins.

Loftslagsbreytingar & jöklar
Loftslag fer hlýnandi um allan heim og nemur hlýnunin á síðustu 100 árum að meðaltali um 0,8°C við yfirborð jarðar, en hitastigsaukningin er um tvöfalt meiri á norðurslóðum.

Jöklarannsóknir
Tilvist jökla er mjög háð veðurfari og því nýtast ýmsar niðurstöður jöklarannsókna við könnun á sögu og áhrifum veðurfarsbreytinga. Íssjármælingar, sporðamælingar og afkomu- og veðurmælingar eru dæmi um jöklarannsóknir.