Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Loftlagsbreytingar og jöklar

Veður er síbreytilegt og aðeins hægt að spá fyrir um það nokkra daga fram í tímann. Loftslag er aftur á móti nokkurs konar meðalveður yfir langan tíma og það breytist hægt. Mæla þarf veðrið í marga áratugi til þess að geta sagt til um loftslagsbreytingar.

Loftslag fer hlýnandi um allan heim og nemur hlýnunin á síðustu 100 árum að meðaltali um 0,8°C við yfirborð jarðar, en hitastigsaukningin er um tvöfalt meiri á norðurslóðum. Þetta virðist ekki há tala þegar horft er til hitasveiflna dag frá degi en þar sem um vik frá meðalárshita er að ræða eru áhrifin víðtæk og birtast m.a. í bráðnun hafíss og jökla, hækkun sjávarborðs, lengri vaxtartíma gróðurs á tempruðum svæðum og breytingum á farháttum dýra, svo eitthvað sé nefnt.

Ástæða hlýnunarinnar er fyrst og fremst aukinn styrkur koltvísýrings (CO2) og fleiri svokallaðra gróðurhúsalofttegunda, svo sem metans (CH4), í lofthjúpnum. Aukning þessara lofttegunda er af mannavöldum og stafar einkum af bruna á kolum og olíu til raforkuframleiðslu, í samgöngum og iðnaði, minni bindingu CO2 vegna gróðureyðingar og losunar metans í landbúnaði. Styrkur CO2 í lofthjúpnum hefur aukist um meira en 45% frá því fyrir iðnbyltingu. Sambærileg aukning CO2 hefur orðið í sjónum og leitt til súrnunar hans, sem verður til þess að að minna er þar af uppleystum kalksamböndum. Ef fram heldur sem horfir munu ýmsar tegundir sjávarlífvera deyja út og súrnunin mun hafa víðtæk áhrif á vistkerfi sjávar.

Vísbendingar um hlýnandi heim

Jöklar á Íslandi hafa hopað hratt í rúma tvo áratugi og er rýrnun þeirra einhver helsta afleiðing hlýnandi loftslags hérlendis og skýr vitnisburður um hlýnunina. Sumir jöklar hafa horfið á síðasta áratug, eins og Okjökull suðvestan Langjökuls er dæmi um. Síðan jöklar á Íslandi náðu mestu útbreiðslu í lok 19. aldar hafa þeir hopað mikið og flatarmál þeirra dregist saman um meira en 2100 km2 eða um 17%. Miklar breytingar hafa orðið á afrennslisleiðum frá jöklum og á jaðarlónum við jökulsporða, ný lón hafa myndast og eldri stækkað, en önnur horfið. Hörfunin hefur hert á sér síðustu áratugina og jöklarnir minnkuðu um rúma 700 km² á tímabilinu 2000–2017 sem samsvarar um 43 km² á ári að meðaltali (til samanburðar er flatarmál Reykjavíkur 273 km2).

Breytingar á Skaftafellsjökli 1989-2020

Hér er horft framan á sporð Skaftafellsjökuls sem liggur utan í Skaftafellsheiðinni á eldri myndinni. Jökullinn hefur þynnst um nokkra tugi metra á á árabilinu 1989–2019. Lónið framan vesturhluta jökulsins tók að myndast upp úr aldamótum 2001, þeim fjölgaði á næstu árum og sameinuðust svo í eitt lón árið 2011.

Skaftafellsjökull 1989. Mynd: Colin BaxterSkaftafellsjökull 2020. Mynd: Kieran Baxter

Ísland liggur í Norður-Atlantshafi, rétt sunnan norðurheimsskautsbaugs. Landið er á mörkum tveggja loftslagsbelta, tempraða beltisins og heimskautasvæðanna, og þar ríkir kaldtemprað úthafsloftslag. Hlýr hafstraumur úr suðri, Norður-Atlantshafsstraumurinn, veldur því að loftslagið er milt miðað við hnattstöðu landsins. Ársmeðalhiti á láglendi á tímabilinu 1971 til 2000 var á bilinu 2–5°C. Suðlægir vindar sem flytja með sér úrkomu ráða mestu um hvar stærstu jökla landsins er að finna. Meðalársúrkoma er meiri en 4000–5000 mm (að hámarki um 8000 mm) efst á Vatnajökli og Mýrdalsjökli, en nær 3500 mm á Hofsjökli og Langjökli.

Hiti á Norður-Atlantshafssvæðinu fyrr á öldum hefur verið áætlaður út frá súrefnissamsætum í ískjörnum frá Grænlandi og er talið að niðurstöðurnar endurspegli aðstæður á Íslandi. Loftslag var kaldast á litlu ísöld (1450–1900). Frá upphafi Íslandsbyggðar fram á 13. öld var hiti svipaður og um miðbik 20. aldar, eða um 1°C hlýrra en kaldasta tímabil litlu ísaldar. Fá svæði á Íslandi hafa orðið fyrir eins miklum áhrifum af loftslagsbreytingum eins og Suðausturland. Á seinni hluta litlu ísaldar gengu jöklar langt fram á láglendið og náðu hámarksútbreiðslu á sögulegum tíma.

After Ice er heimildamynd gerð af fræðimönnum við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði og Dundee-háskóla í Skotlandi. Í myndinni er nýjustu tækni beitt til þess að varpa ljósi á þau miklu áhrif sem hlýnandi loftslag hefur haft á bráðnun jökla á Íslandi. Myndin var frumsýnd 11. mars 2021. Höfundar veittu þjóðgarðinum góðfúslegt leyfi til að sýna myndina á vefsíðu þjóðgarðsins.

Sviðsmyndir settar fram vegna Parísarsamkomulagsins

Framtíð jökla og loftslags

Jöklabreytingar í framtíðinni ráðast aðallega af því hve hratt og mikið loftslagið hlýnar. Um það er ekki hægt að fullyrða en vísindamenn milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hafa skilgreint mismunandi sviðsmyndir þar að lútandi, sem byggja á mismunandi forsendum um fólksfjölgun, efnahags- og tækniþróun og aðgerðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Bjartsýnasta sviðsmyndin, sem gerir ráð fyrir umfangsmiklum mótvægisaðgerðum, myndi leiða til þess að styrkur CO2 í andrúmslofti færi í 450 ppm (milljónustu hlutar) og að loftslag jarðar myndi hlýna um 1,5 °C frá iðnbyltingu (0,7 °C frá núverandi stöðu).

Styrkur CO2 var um 280 ppm við upphaf iðnbyltingar en er nú í ársbyrjun 2018 um 410 ppm. Svartsýnasta sviðsmynd IPCC, sem felur í sér litlar sem engar mótvægisaðgerðir, myndi aftur á móti leiða til þess að styrkur CO2 færi yfir 1000 ppm og hlýnunin yrði um 3,5–4°C. Þessar mismunandi sviðsmyndir hafa verið lagðar til grundvallar reiknilíkana sem meta hve hratt og mikið jöklar landsins hopa.

Hörfandi jöklar

Markmið verkefnisins, sem er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, er að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla á Íslandi sem og annars staðar á jörðinni.