Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Jarðfræði

Jarðfræðileg fjölbreytni innan Vatnajökulsþjóðgarðs er slík að kalla mætti hann jarðfræðiþjóðgarð. Í Vatnajökulsþjóðgarði eru virk eldfjöll, öskjur, eldgígaraðir, eldhraun og dyngjur, jarðmyndanir mótaðar af samspili eldvirkni og jökla; móbergshryggir og stapar, gljúfur rofin af jökulhlaupum og jökulsandar að ógleymdum sjálfum Vatnajökli. Í suðausturhluta garðsins eru útkulnaðar megineldstöðvar með djúpbergsinnskotum og litskrúðugum líparítskriðum. Á milljónum ára hefur landrek fært þær burt frá gosbeltinu um miðbik Íslands.

Samspil elds og íss í tíma og rúmi

Vatnajökulsþjóðgarður er einstakur á heimsvísu vegna jarðsögu sinnar sem einkum er skrifuð af langvarandi átökum elds og íss. Margir staðir skarta eldfjöllum eða jöklum og sumir hvoru tveggja en enginn þeirra státar af átökum flekaskila, möttulstróks og hveljökuls eins og Vatnajökulsþjóðgarður. Samspil þessara fyrirbæra og annarra landmótunarafla hefur skapað síbreytilegri og fjölbreyttari náttúru en finna má á nokkru öðru afmörkuðu svæði í heiminum. Í Vatnajökulsþjóðgarði má upplifa sköpun jarðar í beinni útsendingu.

Heiti reiturinn, flekaskil, gosbeltið og eldvirkni á Íslandi

Gosbelti klýfur Ísland frá norðri til suðurs því landið er á skilum tveggja jarðskorpufleka sem rekur hvorn frá öðrum. Gliðnun jarðskorpunnar fylgir mikil eldvirkni. Ísland er auk þess svokallaður heitur reitur en svo kallast staðir þar sem möttulstrókur rís úr iðrum Jarðar. Miðja möttulstróksins er talin vera undir norðvestanverðum Vatnajökli. Í Vatnajökulsþjóðgarði eru margar af virkustu og öflugustu megineldstöðvum Íslands en einnig eru þar útkulnaðar megineldstöðvar. Í Vatnajökulsþjóðgarði gefst því einstakt tækifæri til að komast í návígi við fjölbreyttar jarðminjar gosbeltisins.

Megineldstöðvar undir jökli

Sjö af tíu megineldstöðvum í Vatnajökulsþjóðgarði leynast undir jökulhettunni og þar eru einnig öflug jarðhitasvæði sem stöðugt bræða jökulís. Bráðnun vegna jarðhita og eldgosa getur orsakað jökulhlaup og gosum sem rjúfa jökulhettuna fylgir jafnan öskufall. Eldgos og jökulhlaup eru náttúruhamfarir sem valda stöðugum breytingum á landi og hafa mikil áhrif á samfélög allt í kringum jökulinn.

Kvik og síbreytileg náttúra

Náttúra Vatnajökulsþjóðgarðs er kvik og síbreytileg en breytingarnar eiga sér bæði stað í tíma og rúmi. Eldvirknin byggir landið upp en roföflin, jöklar, vatn og vindar, brjóta það niður. Ungt landið tekur stöðugum breytingum. Jöklar hörfa, jökulár hlaupa fram og breyta um farveg og jökullón verða til, stækka eða tæmast. Gróður nemur land en á stórum svæðum helst hann á frumstigum framvindu vegna síendurtekinnar röskunar. Á öðrum vex hann og dafnar lengur en getur þó á endanum þurft að láta undan roföflum náttúrunnar. Dýralíf mótast af gróðurfari hvers tíma og mannlífið mótast af kraftmiklum og kvikum náttúruöflunum.