Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Landslag

Fjölbreytni og andstæður einkenna landslag Vatnajökulsþjóðgarðs og jarðfræðileg fjölbreytni þjóðgarðsins er einstök á heimsvísu. Land þjóðgarðsins spannar há brött fjöll, slétta jökulsanda og allt þar á milli. Andstæður landsins endurspeglast ekki síst í litskrúði þess en hvert svæði þjóðgarðsins á sína einkennisliti. Litirnir birtast í mismunandi mynd og lögun sem aðgreina svæðin; svartir sandar, gráir klettar, brúnar jökulár, grænn mosi og skógur, rautt gjall og hveraleir, litskrúðugt ljósgrýti, hvítur jökull og blár himinn.

Landslag þjóðgarðsins er mótað af samverkun jarðelda og jökuls. Það ber svip eldhrauna, jarðhita, móbergshryggja og stapa, jökulgarða, jökullóna og jökulsanda en yfir gnæfir jökulbreiðan. Við sunnanverðan Vatnajökul eru strandsvæði og opið haf.

Landslag

Landslagi í þjóðgarðinum má skipta í nokkra meginflokka í stórum dráttum. Utan við sjálfan jökulinn er háslétta og upp úr henni rísa stök fjöll, mörg jökulsorfin. Nyrst og syðst eru flóðsléttur en heiðalönd í suðvestri og norðaustri. Móbergshryggir eru áberandi í vestri og norðan jökuls, en nyrst gljúfur og ásar.

Auk þessara grófu landslagsdrátta er smágerðari ásýnd mótuð af eldvirkni, rofi og framburði jökla og jökulvatna, einnig af jarðhita. Allt skapar þetta sundurleita umhverfi lífríki sem birtist í fjölbreyttum gróðri og fuglalífi.

Upplifun og öryggi ferðamanna

Fjölbreytt landsvæði Vatnajökulsþjóðgarðs bjóða upp á einstaka möguleika til útivistar, upplifunar og innblásturs. Með góðri miðlun upplýsinga um aðstæður og öryggi og fræðslu um náttúru og sögu þjóðgarðsins má skapa varanleg og áhrifarík tengsl milli gesta og verðmæta hans.