Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Lífríki

Fjölbreytt landslag, jarðfræði og veðurfar móta vistkerfi innan þjóðgarðsins. Á svæðinu er hægt að sjá mikinn breytileika í gróðri og dýralífi, allt frá líflitlum auðnum til svæða með mikinn lífbreytileika.

Sérstaða lífríkis

Gróðurfar er margbreytilegt; gróðurvana jökulsandar, samfelldur hálendisgróður, votlendi, gróðurvinjar í hraunjöðrum, mosabreiður, mólendi og birkiskógar. Dýralíf þjóðgarðsins endurspeglar fjölbreytt landslag, veðurfar og gróðurfar svæðisins. Undir yfirborðinu leynist einnig stórmerkilegt og ævafornt lífríki. Í uppsprettulindum og neðanjarðarsprungum finnast ísaldarmarflær og bifdýr sem þær nærast á, í einangruðum lindakerfum jökuláa hafa þróast merkileg afbrigði dvergbleikju og á háhitasvæðum innan og utan jökuls finnast einstakar hveraörverur og örverulíf.

Gróður

Hrjóstrugt hálendið norðan Vatnajökuls er þurrasta svæði Íslands en við suðvestur-, suður- og austurjaðra hans eru aftur á móti úrkomusömustu svæði landsins. Gróðurfar og vatnafar þjóðgarðsins endurspeglar þennan mikla breytileika í úrkomu og ólíka vatnsheldni berg- og jarðgrunns.

Norðan jökuls eru víðáttumikil nútímahraun og jökulsandar þar sem háplöntugróður er afar rýr. Breiskjufléttur lifa þó góðu lífi í hraunbreiðum Krepputungu og Ódáðahrauns. Á móbergshryggjum, hraunum og vikrum í suðvesturhluta þjóðgarðsins þar sem úrkoma er mest eru mosar, einkum gamburmosar, ríkjandi og sums staðar er hlutdeild þeirra allt að 90% alls gróðurs. Þar eru algengar þrjár vistgerðir sem tengjast eldvirkni og röku loftslagi og finnast óvíða annars staðar á hálendinu, breiskjuhraunavist, melagambravist og sandvikravist. Gróðurvinjar í Herðubreiðarlindum, Jökulsárgljúfrum og víða undir suðurhlíðum Vatnajökuls mynda skarpa andstæðu við auðnirnar en þar er að finna auðuga flóru háplantna með kjarri og blómgróðri. Á Eyjabökkum er eitt af stærstu votlendissvæðum hálendisins. Sunnan jökla eru hávaxnir birkiskógar í dölum og hlíðum, einkum í Skaftafelli. Í birkiskógunum við suðausturjaðar Vatnajökuls er óvenjuleg fléttufunga með sjaldgæfum fléttutegundum; þar er líka að finna sjaldgæfar háplöntutegundir.