Beint í efni
Rafstöð, Skaftafell

Rafstöðin við Magnúsarfoss

Sjálfmenntaðir rafvirkjar, Helgi Arason frá Fagurhólsmýri og Skarphéðinn Gíslason frá Vagnsstöðum reistu tvær rafstöðvar í Skaftafelli. Önnur rafstöðin var við Hæðir og hin í Vestragili, fyrir neðan Magnúsarfoss. Heimarafstöðin í Vestragili var gangsett árið 1925 og hún framleiddi raforku (3,45 kW) fyrir bæina Bölta og Sel.

Raforkan sem hún framleiddi var notuð til matseldar, ljósa og upphitunar. Rafstöðin fékk aflið úr Stóralæk og nýtti vatnsmagn lækjarins í stað fallhæð fossins eins og flestar aðrar rafstöðvar á þeim tíma. Rafstöðin var starfrækt fram til ársins 1973 þegar rafmagn frá ríkinu varð loks í boði. Hún var endurbyggð árin 2001-2003 og er nú opin fyrir gesti. 
Stutt gönguleið liggur að rafstöðinni upp Vestragil frá Lambhaga. Góð viðbót við göngu að Svartafossi eða Seli. 

Tengdar gönguleiðir

S2

Svartifoss - Sjónarsker - Sel

5,8 km hringleið
2 klst
Auðveld

Svartifoss með sína formfögru stuðla er ein af náttúruperlum Skaftafells en leiðin gegnum skógarkjarrið býður ekki síður upp á einstaka upplifun á hvaða árstíma sem er. Á leiðinni má virða fyrir sér Hundafoss og Magnúsarfoss, frá Sjónarskeri er ústýni vítt til allra átta í góðu skyggni og gamli torfbærinn í Seli færir göngufólk til fyrri tíma búsetu í Skaftafelli.

S7

Gömlutún - Gestagata

1,6 km hringleið
0,5-1 klst
Auðveld

Um Gömlutún sem eru neðst í Skaftafellsheiði liggur gestagata. Þar hafa verið sett upp fimm fræðsluskilti þar sem fjallað er um sögu svæðisins, búsetu og mannlíf í Öræfum og áhrif jökulvatna og eldgosa á búsetusögu Öræfa.

Áfangastaðir