Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna
Horft yfir Kverkfjöll

Kverkfjöll

Kverkfjöll eru mikil megineldstöð í norðurbrún Vatnajökuls og þriðji hæsti fjallbálkur landsins á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu.

Tvær jökulfylltar öskjur eru taldar vera í Kverkfjöllum og á Kverkfjallahrygg. Er syðri askjan jökli hulin en rimar þeirrar nyrðri eru að mestu íslausir nema að sunnanverðu; liggja þeir í um og yfir 1800 m hæð. Hæst rís Skarphéðinstindur á austanverðu fjallinu í 1936 metra hæð yfir sjávarmál. Skipta má Kverkfjöllum í eystri og vestari hluta um Kverk sem er mikið skarð í fjöllin norðanverð með geysiháum þverhníptum hamraveggjum. Út um Kverk skríður Kverkjökull til norðvesturs niður undir hásléttuna í um 900 metra hæð. Beggja vegna Kverkfjalla falla frá ísaskilum langt suður á Vatnajökli afar stórir skriðjöklar aflíðandi norður á hásléttuna, í vestri er Dyngjujökull en Brúarjökull í austri.

Kverkfjallarani er að meginhluta byggður upp af samsíða móbergshryggjum, 5-6 talsins, og fara hnjúkar hækkandi eftir því sem nær dregur Kverkfjöllum. Sigdalur sem Hraundalur kallast liggur um ranann endilangan með stefnu á Kverk og skiptir honum í Austur- og Vesturrana. Niður í innsta hluta hans skríða urðarjöklar frá Kverkfjöllum eystri.

Jökuláin Kreppa fellur undan vesturjaðri Brúarjökuls en Jökulsá á Fjöllum í mörgum kvíslum undan Dyngjujökli. Vatnsmestu kvíslar Jökulsár koma undan jökli rétt vestan Kverkfjalla en lengra til vesturs hverfa kvíslar niður í sandorpin hraun. Þar sest til fínn jökulleir sem þyrlast upp í vindi og verða af miklir misturstrókar sem taka fyrir útsýni og geta borist langar leiðir.

Gönguleiðir í nágrenninu

K2

Sigurðarskáli - Kverkjökull

4,1 km aðra leið
2-3 klst.
Krefjandi

Um þrír kílómetrar eru að sporði Kverkjökuls, eftir gönguleið yfir jökulruðning eða eftir bílaslóð inn á jökulurðina skammt frá ánni Volgu. Gæta þarf ítrustu varúðar vegna hruns við jökuljaðarinn.

K3

Sigurðarskáli - Virkisfell

2,1 km
1,5 klst.
Krefjandi
Fram og til baka

Gengið er inn og upp frá Sigurðarskála úr suðri á Virkisfell (1108 m). Fallegt útsýni yfir hálendið og Kverkfjöll.

K4
Mynd: Agnes Brá Birgisdóttir

Sigurðarskáli - Biskupsfell

9 km
4-5 klst.
Krefjandi
Hringleið

Gengið er inn og upp frá Sigurðarskála úr suðri á Virkisfell (1108 m). Biskupsfell (1240 m) er hálfum öðrum kílómetra austar, einnig auðvelt uppgöngu sunnan frá. Þaðan blasir við Tvíhyrna (1240 m).

Ítarefni