Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Krepputunga

Um Krepputungu, Kverkfjöll og Hvannalindir
- Komdu heimsókn

Krepputunga liggur á milli ­beljandi jökuláa, Kreppu og Jökulsár á Fjöllum, með ­Vatnajökul í suðri. Hvannalindir eru sérstæð hálendisvin í annars gróðursnauðri ­Krepputungu þar sem lindavatn sprettur ­undan Lindahrauni. Þær liggja í ­skjóli ­Kreppuhryggjar í austri en ­Lindafjalla og Krepputunguhrauns í vestri. Kverkfjöll eru syðst í Krepputungu og vaka yfir svæðinu.

Aðgengi, þjónusta & fræðsla

Landverðir eru í Hvannlindum og Kverkfjöllum á sumrin og veita þeir ferðamönnum upplýsingar og fræðslu um svæðið og þjóðgarðinn. Einnig er landvörslustöð í Snæfelli.

Landvörslustöð í Hvannalindum
GPS hnit: N64° 53.349' - W016° 18.426'
Símanúmer landvarða: 842 4368

Landvörslustöð í Kverkfjöllum
GPS hnit: N64° 44.850' - W016° 37.890'
Símanúmer landvarða: 842 4369

Landvörslustöð í Snæfelli
GPS hnit: N64° 48.250' - W015° 38.600'
Símanúmer landvarða: 842 4367

Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs er í gildi yfir sumarið þar sem boðið er uppá fjölbreyttar göngur og fræðslu vítt og breitt um þjóðgarðinn. Hægt er að kynna sér fræðslugöngur sumarsins á austursvæði þjóðgarðsins með því að ýta á hlekkinn.

Sigurðarskáli (Mynd: Þorgerður Þ)

Gisting

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Ferðafélag Húsavíkur reka Sigurðarskála í Kverkfjöllum. Við skálann er tjaldsvæði. Þar eru líka vatnssalerni og sturtur. Í Sigurðarskála er gistirými fyrir 75 manns, eldunaraðstaða, tjaldsvæði og snyrtiaðstaða með sturtu. Engin verslun, veitingasala eða eldsneytissala er í Kverkfjöllum.

Náttúra og saga
- fræðsla og uppgötvun

Óvíða á landinu er jarðsaga Íslands og stöðug mótun landsins eins áþreifanleg og á hálendinu norðan Vatnajökuls. Jarðfræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil og fjölbreytni eldstöðva á heimsmælikvarða. Hvert sem litið er sjást eldfjöll, eldgígar, móbergshryggir og -stapar, hraundyngjur, eldbrunnin hraun, sandar eða vikur. Hér gefst gestum þjóðgarðsins einstakt tækifæri að komast í návígi við fjölbreyttar jarðmyndanir og fá lifandi kennslu í jarðfræði.

Eldur & ís

Eitt öflugasta háhitasvæði landsins er að finna í Kverkfjöllum, umlukið jökli í um 1600 –1700 metra hæð. Þar má fylgjast með stöðugri baráttu elda og ísa í jöklinum, upplifa einstakar andstæður jarðhitasvæðisins í Hveradal og sjá hvernig jarðhitavatn í ánni Volgu mótar íshelli í jaðri jökulsins. Undir niðri búa þó enn meiri kraftar þar sem bræðsluvatn safnast fyrir í lítil lón sem geta tæmst skyndilega og skapað hættu. Nokkru vestar í jöklinum er ein stærsta og virkasta eldstöð Íslands, Bárðarbunga, en eldgos í Bárðarbungu geta valdið gríðarlegum jökulhlaupum í Jökulsá á Fjöllum og fleiri stórám sem renna frá jöklinum.

Hvannalindir

Hvannalindir eru gróðurvin í um 640 m hæð norðan undir Lindahrauni í skjóli af Lindafjöllum og Krepputunguhraunum að vestan og Kreppuhrygg að austan. Lindaá fellur úr suðri niður með hraunjaðrinum við Kreppuhrygg. Í Hvannalindum bætist henni Lindakvísl úr suðvestri þar sem kvíslin liðast milli gróinna bakka fram hjá stökum gíghól sem nefnist Lindakeilir. Nafn sitt fá Hvannalindir af ætihvönn sem þar dafnar óáreitt af beit. Sem gróðurvin og vistkerfi eru Hvannalindir einstæðar á Íslandi, að mestu ótruflaðar af búfjárbeit frá því að land byggðist og umkringdar af auðn á alla vegu. Við lindasvæði hálendisins eru gróðurvinjar með einstöku gróðurfari og dýralífi. Í uppsprettulindum og neðanjarðarsprungum finnast ísaldarmarflær og bifdýr sem þær nærast á og í einangruðum lindakerfum Jökulsáa hafa þróast merkileg afbrigði dvergbleikju.

Snæfellsstofa

Snæfellsstofa er staðsett á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Gestastofan er tengd Snæfellsöræfum og þar má fá upplýsingar, fræðslu og versla minjagripi. Sýningin Veraldarhjólið er í Snæfellsstofu og fjallar hún um hringrás og mótun náttúrunnar með áherslu á gróðurfar öræfanna, hreindýr og annað dýralíf. Hönnun sýningarinnar leggur áherslu á að börn geti snert, lyktað og prófað sig á ýmsum sýningarmunum. Yfir sumartímann bjóða landverðir upp á fræðsluviðburði og barnastundir.