Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna
Jökulsárgljúfur, Hljóðaklettar

Hljóðaklettar

Hljóðaklettar og Rauðhólar eru hluti af um 6 km langri gígaröð sem gaus fyrir um 8000-9000 árum. Í upphafi litu gígarnir flestir úr eins og Rauðhólar en Jökulsá hefur sópað lausum jarðefnum af flestum þeirra í hamfarahlaupum og skilið innviðina eina eftir. Þeirra frægastir eru Hljóðaklettar þótt slíka innviði megi sjá víðar með gígaröðinni beggja vegna Jökulsár. Þar má sjá hvernig kvikan hefur storknað ofan í gosrásinni í alls kyns stuðlasveipum sem er fágæt sjón á heimsvísu.

Hljóðaklettar eru við Vesturdal um 15 km sunnan við Ásbyrgi og þangað liggur malbikaður vegur. Frá bílastæði við Langavatnshöfða er gott aðgengi fyrir alla og gott útsýni yfir gígaröðina. Frá bílastæði nær Hljóðaklettum liggja merktar gönguleiðir um svæðið og þar er einnig tenging við gönguleiðir frá Dettifossi og Hólmatungumí suðri og Ásbyrgi úr norðri. Þegar gengið er um svæðið er vert að veita því athygli hvaðan niðurinn úr Jökulsá á Fjöllum berst og velta má því fyrir sér af hverju klettarnir heiti Hljóðaklettar.

Vert er að taka fram að vegna hættu á gróðurskemmdum er gangandi umferð óheimil utan merktra göngustíga í Hljóðaklettum og Rauðhólum.

Klettamyndanir Hljóðakletta taka á sig ýmis form sem mannfólkið hefur gefið nafn. Tröllkarlinn, Kirkjan og Karl og Kerling eru þar einna þekktust. Kirkjan er hellishvelfing sem ferðafólk fór fljótlega að nefna þessu nafni en sögur af Tröllkarlinum og Karli og Kerlingu eiga sér rætur í búsetusögu Jökulsárgljúfra.

Fræðsla

Gönguleiðir um Hljóðakletta og Vesturdal

V1
Jökulsárgljúfur, Vesturdalur, tjaldsvæði

Eyjan í Vesturdal

1 km hringleið
30 mín
Auðveld

Frá tjaldsvæðinu í Vesturdal er örstutt hringleið um nyrsta hluta Eyjunnar í Vesturdal. Á leiðinni eru mosavaxnar klappir og litlar tjarnir. Þetta er auðveld gönguleið og tilvalin kvöldganga.

V2
Jökulsárgljúfur, Hljóðaklettar, Tröllið, gönguleið

Hljóðaklettar - Tröllið

1,2 km fram og til baka
30 mín
Auðveld

Hér er hægt að fara einfalda og stutta leið frá bílastæði niður að Hljóðaklettum. Fyrsti kletturinn sem komið er að ber nafnið Tröllið og er einn af fáum klettum í Hljóðaklettum sem ber ákveðið nafn. Sé farið rétt austur fyrir Tröllið (til hægri) og gengið nokkra metra yfir klettana, er hægt að sjá afar fallega stuðlabergsröðum og býkúpuveðrun í klettunum. Sama leið er farin til baka.

V3
Jökulsárgljúfur, Hljóðaklettar, stuðlar

Hljóðaklettahringur

3 km hringleið
1-1,5 klst
Krefjandi

Hljóðaklettar eru fornar eldstöðvar þar sem Jökulsá hefur skolað í burtu öllu lausa gosefninu og skilið eftir innviði gíganna. Jarðmyndanir eru á heimsmælikvarða, sjá má stuðla vefjast í alls konar form, býkúpuveðrara kletta og hella af ýmsum stærðum.

V4
Rauðhólar, Hljóðaklettar, Jökulsárgljúfur

Rauðhólahringur

5 km hringleið
1,5 - 2 klst
Krefjandi

Í upphafi er gengin er sama leið og þegar farið er um Hljóðakletta en skammt frá Kirkjunni heldur leiðin áfram norður á Rauðhóla sem klæddir eru rauðri og svartri gjallkápu. Á leiðinni blasa víða við ýmis jarðfræðifyrirbrigði. Af Rauðhólum er gott útsýni norður yfir gljúfrin og suður yfir Hljóðakletta.

V5

Karl og Kerling

2-3 km fram og til baka
1 klst
Auðveld

Frá bílastæðinu við Hljóðakletta liggur auðveld gönguleið í suður, að útsýnisstað yfir gömlu tröllin Karl og Kerlingu sem standa á eyrinni við Jökulsá. Sé snúið við þar er leiðin um 2 km og auðveld yfirferðar (blá leið). Hægt er að ganga alveg niður að hjúunum en sú leið er flokkuð sem krefjandi (rauð leið) og leiðin lengist í 3 km.

V7

Svíndalshringur

7 km hringleið
2-3 klst
Krefjandi

Á Svínadal var búið til ársins 1946 og á þessari gönguleið má sjá ýmis ummerki búsetu fyrri tíma. Leiðin hefst við bílastæðið við Hljóðakletta þar sem gengið er í suður fram hjá tröllunum Karli og Kerlingu. Á leiðinni er fallegt útsýni yfir Jökulsá og Hljóðakletta. Við Kallbjarg var kláfur fyrr á síðustu öld og voru fluttar með honum ýmsar nauðsynjar yfir ána. Örnefni á svæðinu bera glöggt merki um búsetu manna, Stefaníutjörn, Hádegishólar, Miðaftansfell og Einbúi svo eitthvað sé nefnt.

L1, L2, L3

Ásbyrgi - Dettifoss

32 km ein leið
2 dagar
Krefjandi leið

Milli Ásbyrgis og Dettifoss liggur um 32 km gönguleið eftir Jökulsárgljúfrum. Fjölbreytileiki landslagsins er einstakur og andstæður í umhverfinu fanga augað við hvert fótspor: hrikaleg gljúfur, kyrrlátar tjarnir, tærar lindir, úfin jökulsá, gróskumikill skógur og grýttur melur.
Það þarf að ætla sér tvo daga í gönguna og þá er miðað við náttstað í Vesturdal. Einungis er leyft að tjalda á tjaldsvæði í Vesturdal og við Dettifoss.