Beint í efni

Vonarskarð

Vonarskarð er meðal annars merkilegt fyrir þær sakir að þar eru vatnaskil milli Norður og Suðurlands og upptök bæði Skjálfandafljóts og Köldukvíslar. Á vestursvæði Vonarskarðs er háhitasvæði og finnast þar nær öll þekkt fyrirbrigði sem finnast á slíkum svæðum. Svæðið er afskekkt, sumir telja að Gnúpa-Bárður hafi farið í gegnum skarðið á landnámsöld en fyrsta skráða ferð um svæðið var um 1839. Enginn akvegur er í Vonarskarð en hægt að ganga þangað frá Kolufelli, Gjóstu og Nýjadal.

Fræðsla

Gönguleiðir í Vonarskarði

N6

Nýidalur - Vonarskarð - Nýidalur

28 km
7-10 klst
Krefjandi

Leiðin fylgir Mjóhálsi inn í Vonarskarð og að háhitasvæðinu í Hverahlíð þar sem er að finna fjölbreytilegar hveramyndanir. Af Mjóhálsi (hækkun 250 m) en heildarhækkun er mun meiri eða um 700m. Á leiðinni er stórbrotið útsýni yfir Nýjadal og á Tungnafellsjökul. Athugið að gæta varkárni við háhitasvæði og að ekki er síma- né tetrasamband í Vonarskarði.

N7

Svarthöfði - Vonarskarð

6,5 km
3-5 klst
Krefjandi

Gengið yfir skarðið milli Svarthöfða og Kolufells. Þaðan með hlíðum Skrauta inn Snapadal að háhitasvæðinu í Hverahlíð. Stórbrotið land, líparítskriður, fjallagróður og háhitasvæði. Athugið að hvorki síma- né tetrasamband er í Vonarskarði.

N8

Tvílitaskarð

9 km
3-5 klst
Krefjandi

Hringleið um Kolufell. Útsýni yfir Vonarskarð, fjölbreytilegar móbergs- og líparítmyndanir, friðsælt fjallavatn. Svartar hlíðar Kolufells á aðra hönd og litadýrð líparítsins í Skrauta, á hina.

N9

Gjósta - Vonarskarð

8 km
4-6 klst
Krefjandi

Leiðin liggur um Gjóstuklif niður í Vonarskarð og þaðan að háhitasvæðinu í Hverahlíð. Á leiðinni er gott útsýni yfir Vonarskarð og vatnaskilin, auðnir og háhitasvæði. Athugið að ekki er síma- né tetrasamband í Vonarskarði.