
Fláajökull
Fláajökull er skriðjökull úr Vatnajökli við suðurhluta Vatnajökulsþjóðgarðs.
Fláajökull er skriðjökull sem staðsettur er í um 40 km fjarlægð vestur af Höfn í Hornafirði, en gera má ráð fyrir að aksturinn taki 30 mínútur frá Höfn. Afleggjarinn að Fláajökli liggur frá þjóðvegi 1 milli bæjanna Hólms og Lambleiksstaða og keyra þarf um 6 km langan malarveg að bílastæðinu við Fláajökul.
Einnig er hægt að komast að Fláajökli frá Haukafelli sem er í um 30 km fjarlægð vestur af Höfn. Keyrt að er að tjaldsvæðinu við Haukafell og gengin er rúmlegan 2 kílómetra löng gönguleið að Fláajökli.
Nokkrar gönguleiðir eru á svæðinu ásamt áhugaverðum fræðsluskiltum um jarðfræði og sögu svæðisins. Á svæðinu er hægt að sjá hreindýr, sérstaklega yfir vetrartímann.
Saga
Fláajökull náði hámarksútbreiðslu árið 1894, eftir aldalanga framrás, við kaldara loftslag en nú er. Á tímaskeiði sem er nefnt ,,litla ísöld'', og hófst á 13. öld og stóð til loka 19. aldar, gengu jöklar fram. Fláajökull reiddi jökulsporð sinn fram á láglendið, skammt frá nálægustu bæjum. Jökulár flæmdust um, eyðilögðu beitarlendi og lögðu jarðir í eyði.
Árið 1937 var Hólmsá færð í eldri farveg til þess aðð hindra frekara tjón á nytjalöndum með byggingu varnargarðs. Árið 2002 var byggður 1700 metra langur varnargarður nærri jöklinum til þess að tryggja að áin héldist í núverandi farvegi.
Gönguleiðir

Jarðfræðislóð austan Fláajökuls
Á þessari leið eru fræðsluskilti um jarðfræði svæðisins. Tilvalið er að bæta þessum útúrdúr við J3 leiðina. Einnig er hægt að ganga þessa leið með upphaf og endi í Haukafelli, en þá verður hún dálítið lengri.
Mynd: Istock (Aroxopt)

Söguslóð sunnan Fláajökuls
Á þessari leið eru fræðsluskilti, aðallega um framkvæmdir við varnargarða á árum áður.

Heinabergslón - Fláajökull (Hólmsá)
Vegfarendur sem hyggjast fara þessa leið, ættu að hafa í huga að brú sem var yfir Hólmsá hrundi í miklum flóðum í september 2017. Ekki er mælt með því að vaða Hólmsá.

Fláajökull (Hólmsá) - Haukafell
Þessi leið liggur milli Hólmsár og Haukafells. Bílastæði eru á báðum endum leiðarinnar og brú yfir Kolgrafardalsá, sem þvera þarf nálægt Haukafelli.