Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Heinaberg

Mynd: Frank Fichtmüller, iStock

Um Heinaberg
– komdu í heimsókn

Skriðjöklarnir við Hornafjörð setja svip sinn á svæðið. Þeir samanstanda af Skálafellsjökli, Heinabergsjökli, Fláajökli og Hoffellsjökli. Er fágætt að finna jökla í jafnmiklu návígi við heilt byggðarlag. Oft má sjá stórar hjarðir hreindýra á svæðinu frá hausti og fram á vor.

Aðgengi, árstíðir og þjónusta

Afleggjarinn að Heinabergslóni liggur frá þjóðvegi 1 milli Skálafells og Flateyjar. Keyra þarf um það bil 8 km langan malarveg að Heinabergslóni. Eftir rúmlega 5 km akstur á malarveginum er komið að gatnamótum. Ef haldið er áfram til vinstri liggur leiðin að Heinabergslóni en ef ekinn er vegurinn sem er til hægri er hægt að keyra að rústum gamla bæjarins við Heinaberg og að Bólstaðafossi. Hafa ber í huga að vegurinn er illfær fólksbílum og er mælt með því að ferðast á fjórhjóladrifnu ökutæki um svæðið.Við Heinabergslón er þurrsalerni sem er opið allt árið um kring. Á Heinabergslóni er stunduð árstíðabundin ferðaþjónusta. Símanúmer landvarða á Breiðamerkursandi er: 842-4355

Fræðsla og upplýsingagjöf

Nokkrar merktar gönguleiðir er á svæðinu sem hægt er að ganga og eru þær fjölbreyttar í tíma og lengd. Stuttur fræðslustígur liggur frá bílastæðinu við Heinabergslón með áherslu á hörfandi jökla. Bækling með upplýsingum á gönguleiðinni má nálgast á skilti á bílastæðinu. Á svæðinu er hægt að sjá hreindýr, sérstaklega yfir vetrartímann. Landverðir á Breiðamerkursandi sinna viðhaldi og eftirliti við Skálafellsjökul, Heinaberg og Hoffell. Einnig sinna þeir eftirliti við íshella sem eru í Breiðamerkurjökli. Landvörður er í Lónsöræfum yfir hásumar og sinnir þar viðhaldi á göngustígum og veitir ferðafólki upplýsingar.

Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs er í gildi yfir sumarið þar sem boðið er uppá fjölbreyttar göngur og fræðslu vítt og breitt um þjóðgarðinn. Hægt er að kynna sér fræðslugöngur sumarsins á suðursvæði þjóðgarðsins með því að ýta á hlekkinn.

Náttúra og saga
- fræðsla og uppgötvun

Þegar Vatnajökull hopar kemur nýtt land í ljós og breytingar verða á rennsli jökuláa. Þannig skapast aðstæður fyrir landnám lífs á víðáttumiklum söndum og jökulurðum. Á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs gefst lærðum jafnt sem leikum einstakt tækifæri til að fylgjast með náttúrulegri gróðurframvindu, landnámi dýra og mótun nýrra vistkerfa.

Baráttan við vötnin

Heinabergsjökull er á milli Skálafellsjökuls til vesturs og Fláajökuls til austurs. Þessar jökultungur setja mikinn svip á svæðið. Heinabergsjökull var stærstur í kringum árið 1887. Meðan Heinabergsjökull var þykkastur myndaði hann trausta stíflu og yfirfylltist þá lónið í Vatnsdal. Vatn úr lóninu flæddi þá á yfirfalli yfir bergþröskuld niður í Heinabergsdal.

Vatnsdalshlaupin voru alræmd fyrir eyðingu ræktarlands. Heinabergsjökull tók að hopa og rýrna undir lok 19. aldar. Þegar ísstíflan við mynni Vatnsdals þynntist náði vatnið að þrengja sér undir hana og hætti þá að renna yfir bergþröskuldinn. Eftir það tæmdist lónið a.m.k. árlega í snöggum jökulhlaupum. Vatnið ruddi sér leið undir jökulinn um göng við botn hans og braust fram undan jökuljaðrinum. Fyrsta Vatnsdalshlaupið 1898 var hamfarahlaup, sem flæddi yfir stóran hluta láglendisins. Nokkrar jarðir fóru í eyði vegna ágangs jökulvatna og sandfoks.

Brúin yfir Heinabergsvötn

Vorið 1947 hófst smíði á þessari veglegu brú yfir Heinabergsvötn, sem þá var mikill farartálmi. Ári síðar var verkinu lokið. Um haustið 1948 höfðu Heinabergsvötnin hins vegar fært sig alfarið vestur í farveg Kolgrímu. Ástæða þess voru landbreytingar samhliða hopi Skálafells- og Heinabergsjökuls. Brúin tengir enn bakka hins þurra árfarvegar, og er ágæt áminning um hverfulleika náttúrunnar.

Brúin yfir Heinabergsvötn skömmu eftir opnun 1948, með Skálafellsjökul að baki.Brúin yfir Heinabergsvötn í júní 2021.

Hörfandi jöklar

Óvíða er návígi við jökla jafn mikið og hraðar breytingar þeirra jafn sjáanlegar og sunnan við Vatnajökul. Mikil áhersla er lögð á fræðslu um loftslagsbreytingar á svæðinu og er einnig hægt að skoða efnið hér nánar.

Skaftafellsstofa

Skaftafellsstofa er gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á suðursvæði. Gestastofan er opin allan ársins hring. Þar veita landverðir og þjónustufulltrúar gestum fræðslu og upplýsingar um náttúrufar Skaftafells, gönguleiðir, gistingu og afþreyingu í næsta nágrenni. Í Skaftafellsstofu er minjagripaverslun með áherslu á fræðslu og handverk úr byggðarlaginu. Fyrir framan Skaftafellsstofu er fræðslutorg þar sem lögð er áhersla á góða upplýsingagjöf um svæðið ásamt því að fræða um hið einstaka samspil mannvistar og náttúru í Skaftafelli og áhrif loftlagsbreytinga á mannlíf og umhverfið.